Þyrlulending á Hornströndum talin heimil

Héraðsdómur Vestfjarða.
Héraðsdómur Vestfjarða. Bæjarins besta

Þyrlufyrirtækið Reykjavik Helicopters ehf., framkvæmdastjóri þess og tveir flugmenn fengu í vikunni sýknudóm fyrir Héraðsdómi Vestfjarða af ákæru fyrir brot gegn náttúruverndarlögum og auglýsingu um staðfestingu á verndaráætlun friðlandsins á Hornströndum.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var ákærður fyrir að hafa staðið fyrir, skipulagt og selt útsýnisflug með tveimur þyrlum um friðlandið á Hornströndum og lendingu þar, nánar tiltekið í Fljótavík, í júlí 2020. Þá voru flugmennirnir tveir ákærðir fyrir að hafa flogið vélunum og lent þeim í Fljótavík án þess að hafa haft leyfi Umhverfisstofnunar til lendingar. 

Þyrlunum hafði verð lent á skilgreindum lendingarstað samkvæmt aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og fóru farþegar þá frá borði og héldu ferð sinni áfram. 

Var það mat dómsins að sú regla sem sett var í auglýsingu ráðherra hefði ekki haft fullnægjandi lagastoð í náttúruverndarlögum, enda hafi það lagaákvæði sem auglýsingin sótti grundvöll sinn til ekki falið í sér neina tilvísun til takmörkunar á flugumferð eða sett áþreifanlegan ramma um hugsanlegar reglur sem gilda ættu í slíkum tilvikum. Veittu lögin því ekki fullnægjandi lagastoð við heimild ráðherra til að mæla fyrir um refsinæmi þeirrar háttsemi sem ákærðu viðhöfðu. Þá var einnig á það minnst í dómnum að þyrlunum hefði verið lent á skilgreindum lendingarstað samkvæmt aðalskipulagi svæðisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert