Bjartsýnn á afléttingar í Skagafirði

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir útlit fyrir að búið sé að ná tökum á hópsmiti sem kom upp í Skagafirði fyrir rúmri viku. Hann er bjartsýnn á að hægt verði að aflétta sérstökum takmörkunum sem gilt hafa í héraðinu síðan á mánudag.

Tvö kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og voru báðir hinna smituðu í sóttkví við greiningu. Annar þeirra var í Skagafirði og er fjöldi smita á svæðinu síðustu rúmu viku nú orðinn 15. Einn þeirra tekur út einangrun sína utan heimabyggðar og uppgefin tala  almannavarna um fjölda í einangrun á Sauðárkróki er því 14.

Skólar og margar verslanir og stofnanir á Sauðárkróki hafa verið lokuð síðan á mánudag, sem og sundlaugar í Skagafirði, en þann sama dag tók gildi tilslökun á sóttvarnaaðgerðum á landsvísu sem ekki gilti um Sveitarfélagið Skagafjörð og Akrahrepp.

„Það hefur verið brugðist mjög hratt og vel við, og þeir sem hafa verið að greinast undanfarið hafa verið í sóttkví. Ég vona að það sé búið að ná tökum á þessu rétt eins og tókst í Ölfusi og á fleiri stöðum,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert