Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Vesturlands yfir Birni Inga Hrafnssyni fjölmiðlamanni, en hann var dæmdur til greiða þrotabúi Pressunnar ehf. 80 milljónir króna auk vaxta.
Héraðsdómur hafði áður fallist á kröfu þrotabúsins um riftingu veðsetninga Pressunnar ehf. á eignum félagsins með lánasamningi sem gerður var á milli Pressunnar og Björns Inga, sem þá var stjórnarformaður Pressunnar, í júní árið 2017.
Að auki var Birni Inga gert að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. eina milljón króna í málskostnað fyrir Landsrétti.
Frjáls fjölmiðlun ehf., sem tók yfir miðla Pressunnar skömmu áður en félagið fór í gjaldþrot, tók einnig yfir skuld Pressunnar við Björn Inga á grundvelli þessa lánasamnings, en þessari yfirtöku skuldanna hefur einnig verið rift og því þarf Björn Ingi að greiða þrotabúinu 80 milljónir króna.
Lögmenn þrotabúsins færðu rök fyrir því fyrir héraðsdómi á sínum tíma að ekkert í bókhaldi Pressunnar benti til þess að Björn Ingi hefði nokkru sinni lánað Pressunni þessar 80 milljónir króna, eins og hann segist hafa gert í nokkrum greiðslum.
Þrotabúið sakaði Björn Inga um að hafa gengið frá veðsetningunni til að tryggja hagsmuni sína á kostnað annarra kröfuhafa áður en Pressan færi í þrot, en með þessari veðsetningu öðlaðist Björn Ingi allsherjarveð í Pressunni og fjölmiðlum útgáfufélagsins, Eyjunni, Bleikt, 433 og Pressunni.
Dómur Landsréttar kveður á um riftingu eftirfarandi veðsetninga:
Firmanafnið og vörumerkið Eyjan, vefmiðillinn eyjan.is og lén síðunnar
Firmanafnið og vörumerkið Bleikt, vefmiðillinn bleikt.is og lén síðunnar
Firmanafnið og vörumerkið 433, vefmiðillinn 433.is og lén síðunnar