Björn Þorfinnsson hefur verið ráðinn nýr ritstjóri DV. Hann tekjur við starfinu af Tobbu Marinósdóttur, sem lét nýverið af störfum. Björn hóf störf á DV í byrjun árs 2015 og gegndi síðar stöðu fréttastjóra áður en hann færði sig til starfa á Fréttablaðinu, sem er líkt og DV í eigu Torgs. Þar vann hann þar til fyrr á þessu ári.
Greint er frá ráðningunni á dv.is. Haft er eftir Birni að aðsóknin á dv.is sé gríðarleg og því um að ræða sterkan vettvang til þess að koma á framfæri fréttum og sögum fólks sem eiga erindi við samfélagið og hrista jafnvel upp í því.
„Mitt helsta markmið [er] að freista þess að styrkja fréttahluta miðilsins ennf rekar og bjóða lesendum upp á góða blöndu af fréttum og afþreyingarefni,“ er haft eftir Birni. Prentútgáfu DV var hætt í síðasta mánuði og öll áhersla nú á vefinn dv.is, sem er þriðji mest lesni fréttavefur landsins.
Björn er fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands og státar af alþjóðlegum meistaratitili í íþróttinni auk þess sem hann hefur náð tveimur af þremur áföngum sem þarf til að ná stórmeistaratitli.