Drífa Snædal, forseti ASÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún svarar orðræðu „ráðamanna og fyrirtækjaeigenda” og fordæmir ofbeldi Ísraelshers í Palestínu.
Yfirlýsingin er annars vegar svar við orðum sem Bjarni Benediktsson lét falla í viðtali við Markaðinn á Hringbraut þann 12. maí. Þá gerði fjármálaráðherra slagorð verkalýðshreyfinganna, „það er nóg til,“ að umfjöllunarefni. Hann sagði slagorðið alrangt, hann sjái í fjármálaráðuneytinu að það sé alls ekki nóg til.
Hins vegar er yfirlýsingunni ætlað að svara Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair. Bogi sagði í Dagmálum að þær launahækkanir sem hefðu átt sér stað með kjarasamningum síðustu ára væru „úr kortunum miðað við samkeppnislöndin. Síðustu tólf mánuði hafa þetta verið ríflega 10% á ársgrundvelli meðan við erum að horfa upp á núll til tvö prósent hjá samkeppnislöndunum“.
Drífa leggur til að gera fyrirtækjum skylt að greina frá launabili starfsmanna ásamt því að halda bilinu ásættanlegu. Þá krefur hún fjármálaráðherra jafnframt um svör við því hvers vegna verið sé að lækka gjöld á hlutbréfakaupendur og atvinnurekendur í gegnum tryggingagjald.
„Veiking skattrannsókna er svo kapítuli út af fyrir sig þegar skattaundanskot eru metin af fjármálaráðuneytinu á 3-7% af landsframleiðslu. Það má líka vinda ofan af markaðsvæðingu húsnæðismarkaðarins þannig að fólk hafi í raun möguleika á öryggi í sínu daglega lífi óháð tekjum. Krafan um mannsæmandi laun er krafan um öryggi, sanngirni og lífsgæði. Til hvers eru ráðamenn ef ekki til að skilja þetta grundvallaratriði í lífi almennings?“ segir í yfirlýsingunni.
Að endingu beinir Drífa sjónum sínum að botni Miðjararhafs og fordæmir handtökur og ofbeldi Ísraelshers gagnvart Palestínumönnum. „Alþjóðlega verkalýðshreyfingin fordæmir þetta og það hef ég einnig gert við sendiherra Ísraela.“