Garðabær hyggst ræða við forsvarsmenn Secret Solstice-hátíðarinnar

Secret Solstice-hátíðin hefur hingað til farið fram í Laugardalnum.
Secret Solstice-hátíðin hefur hingað til farið fram í Laugardalnum. mbl.is/Árni Sæberg

Bæði menningar- og tómstundafulltrúi Garðabæjar segjast munu þurfa að skoða forvarnarmál, umgengni og hávaðamengun í kjölfar boðs forsprakka Secret Solstice um að halda tónlistar- og menningarhátíðina þar í bæ.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu á miðvikudag hefur Jón Bjarni Steinsson lagt fram erindi við bæjarráð Garðabæjar um að halda tónlistarhátíðina Secret Solstice á Vífilstaðatúni. Í samtali við mbl.is sagðist Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar, þurfa að huga að mörgum þáttum áður en ákvörðun yrði tekin.

Ólöf lýsti yfir áhyggjum af sögu hátíðarinnar en íbúar í Laugardalnum, þar sem hátíðin hefur hingað til farið fram, hafa gjarnan kvartað yfir hávaða, sóðaskap og eiturlyfjaneyslu. Vífilstaðatún er fallegt svæði með viðkvæmri náttúru og því þyrfti að vanda vel til verka svo svæðið biði ekki varanlegan skaða af hátíðinni. Einnig þyrfti að gera ráðstafanir vegna Vífilstaðaspítala sem stendur í grennd við svæðið.

Íþrótta og tómstundaráð Garðabæjar mun funda síðdegis í dag um málið, Kári Jónsson er formaður nefndarinnar en sagðist í samtali við mbl.is ekki vita mikið um erindið. Hann gerði þó ráð fyrir að viðræður yrðu teknar upp við forsvarsmenn hátíðarinnar. Meta yrði hag bæjarins af því að halda slíka hátið en hann sagðist ekki vita nákvæmlega hver hann væri. Vífilstaðatún er eina svæði bæjarins sem gæti mögulega tekið á móti svo mörgu fólki.  

Að undanskilidu Covid-sumrinu í fyrra hefur Secret Solstice farið fram árlega síðan árið 2014. Skuldastaða rekstrarfélaga hátiðarinnar gagnvart borg, ríki og tónlistarmönnum hefur lengi verið viðvarandi umfjöllunarefni. Nú síðast í febrúar 2021 voru félögin dæmd til að greiða hljómsveitinni Slayer rúmar 17 milljónir króna vegna hljómleika þeirra á hátíðinni 2018.

Jón Bjarni, sem fer fyrir boðinu, er Garðbæingur og telur sveitarfélagið geta haft mikinn hag af því að halda hátiðina á Vífilstaðatúni en ætlunin er að halda litla tónleika víðsvegar um bæinn meðfram hátíðinni.

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018.
Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert