Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vita, segist finna fyrir auknum áhuga hjá Íslendingum sem vilja ferðast til útlanda á næstu misserum og segir hann áhugann hafa aukist síðustu daga og vikur með aukinni bólusetningu gegn Covid-19.
Þráinn bendir á að í gærmorgun hafi breiðþota á vegum Vita flogið með 260 farþega til Alicante og þá hafi þurft að stækka vélina með aukinni eftirspurn.
„Ég held að þegar fólk sér fram á að það verði bólusett eða er búið að fá bólusetningu þá er það tilbúið til þess að plana sumarið,“ segir Þráinn og bendir á að fólk geti einnig breytt ferðunum sínum hjá Vita með stuttum fyrirvara án þess að þurfa að borga fyrir það og þá þurfi fólk ekki að taka neina áhættu.
Um helmingur þeirra 280.000 sem á að bólusetja gegn kórónuveirunni hér á landi hafa fengið einn eða tvo skammta af bóluefni. Þá eru 62.276 manns fullbólusettir.