Katrín fundar með Blinken og Lavrov

Antony Blinken og Sergei Lavrov, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands.
Antony Blinken og Sergei Lavrov, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands. Ljósmynd/Samsett

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðna Th. Jóhannessyni forseta og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í heimsókn sinni á Íslandi.

Þetta kemur fram í dagskrá ráðherrans sem birt er á heimasíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Blinken kemur hingað til lands 17. maí og tekur þátt í fundi Norðurskautsráðsins 19.-20. maí. Samkvæmt heimildum mbl.is mun Katrín funda með Blinken annars vegar og Sergei Lavrov, hins vegar.

Í dagskrá Blinkens segir að á fundunum með íslenskum ráðamönnum verði til umræðu samband Bandaríkjanna og Íslands, sameiginleg áhersla á mannréttindi, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, vestræn samvinna og öryggi á Norðurslóðum.

Heimsækir líka Danmörku og Grænland

Áður en Blinken kemur til Íslands mun hann heimsækja Danmörku og funda þar með Mette Frederiksen forsætisráðherra og Jeppe Kofod utanríkisráðherra auk þess að ræða við Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja.

Að Íslandsförinni aflokinni heldur Blinken svo til Grænlands þar sem hann ræðir viðMúte Bourup Egede, nýjan forsætisráðherra Grænlands. Ætla má að það verði áhugaverður fundur enda sá fyrsti milli grænlenskra og bandarískra erindreka frá því Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, reyndi að kaupa Grænland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert