„Mikilvæg skilaboð bæði hér og út í heim“

Alexandra Briem er fyrsta transkonan sem gegnir embætti forseta borgarstjórnar.
Alexandra Briem er fyrsta transkonan sem gegnir embætti forseta borgarstjórnar. mbl.is

Alexandra Briem er fyrsta transkonan til þess að gegna embætti forseta borgarstjórnar á Íslandi. Hún segist þakklát fyrir traustið, þótt hún hefði viljað sjá Sigurborg Ósk Haraldsdóttur áfram í embætti formanns skipulagsráðs.  

Tilfærslurnar koma til í ljósi þess að Sigurborg Ósk Haraldsdóttir steig til hliðar vegna veikinda.

Pawel Bartoszek, fráfarandi forseti borgarstjórnar, tekur við keflinu sem formaður skipulagsráðs og Alexandra kemur í hans stað sem forseti. 

„Við þurfum að vinna með stöðunni eins og hún er og ég er þakklát fyrir þetta traust sem mér er sýnt og ég er ánægð. Með þessu erum við að senda mikilvæg skilaboð hér og út í heim. Jafnvel þó það sé sjálfsagt hérna er það ekki endilega raunin alls staðar,“ segir hún. Einhvern tímann verði allt fyrst.

Heillaðist strax af ráðhúsinu

Alexandra heillaðist strax af ráðhúsinu og borgarmálunum strax á barnsaldri, en hún vandi komur sínar þangað til ömmu sinnar, sem vann í móttöku hússins.

„Mér hefur alltaf þótt þetta vera eitthvað sem er mikilvægt. Ég sá það alltaf þegar ég mætti þarna í ráðhúsið að heimsækja ömmu í vinnuna. Ég vissi að þetta væri eitthvað sem þyrfti að gera vel og eitthvað sem ég yrði stolt af einn daginn, þegar ég liti til baka,“ segir hún. „Meira að segja þá var ég ekki farin að láta mig dreyma um að verða forseti.“

Dagur B. Eggertsson greindi frá þessum vendingum í tísti sem hann lauk á þessum orðum: „Talandi um að ryðja brautina!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert