Miskabætur felldar niður af Landsrétti

Landsréttur
Landsréttur Hanna Andrésdóttir

Maður sem varð fyrir bíl í desembermánuði 2017 og hlaut af því heilaskaða mun ekki fá miskabætur. Héraðsdómur hafði dæmt honum 4 milljónir króna í miskabætur og fór hann fram á 5 milljónir fyrir Landsrétti. Kemur þetta fram í dómi Landsréttar sem var kveðinn upp í málinu í dag.

Í desembermánuði 2017 varð alvarlegt slys við Bæjarháls þar sem ekið var á gangandi vegfaranda á gangbraut með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og hlaut af heilablæðingu og höfuðkúpubrot. Olli slysið heilaskaða og hefur endurhæfingarferlið tekið óvenju langan tíma en afleiðingarnar verða líklega viðvarandi ævilangt. Kom þetta fram í vitnisburði fyrir héraðsdómi.

Ökumaðurinn kvaðst hafa ekið rólega yfir gatnamótin á grænu ljósi, enda var dimmt úti og rigningarúði. Hann sagðist ekki hafa séð manninn en heyrt dynk þegar hann skall á frambretti bifreiðarinnar.

Niðurstaða Landsréttar

Í héraði var ökumaðurinn dæmdur í 1 mánaðar fangelsi, en fullnustu refsingar þó frestað og hún félli niður eftir 2 mánuði héldi hann skilorð. Var litið til þess að ökumaðurinn væri kominn á sjötugsaldur, með hreint sakavottorð og að málið hafi reynst honum mjög erfitt. Var þessi niðurstaða staðfest af Landsrétti.

Miskabótakrafan sem héraðsdómur féllst á var hinsvegar hrundið fyrir Landsrétti. Til þess að geta átt miskabótakröfu á hendur ökumanni þarf að vera fyrir hendi stórkostlegt gáleysi.

Þótt ökumaðurinn hafi sýnt af sér gáleysi þá taldi Landsréttur ekki sannað að gáleysið hafi verið stórkostlegt. Maðurinn sem ekið var á man ekki eftir atvikinu og ekkert liggur fyrir um að ökumaðurinn hafi ekið óvarlega, var hann því sýknaður af kröfu um greiðslu miskabóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert