Saeed er 22 ára hælisleitandi frá Afganistan sem stjórnvöld hyggjast senda úr landi næstkomandi þriðjudag. Hann kom til landsins 16. júní í fyrra en þann 30. maí verður hálft ár liðið frá því að kærunefnd útlendingamála synjaði honum um dvalarleyfi. Sé Saeed ennþá á landinu 30. maí þarf Útlendingastofnun að taka málið til efnislegrar meðferðar samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.
Í samtali við mbl.is segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, lögmaður Saeeds, að stjórnvöld ætli að senda hann úr landi næstkomandi þriðjudag til þess að komast hjá því að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun hafa hingað til bæði tvö vísað til hins Dyflinnarreglugerðarinnar sem heimilar löndum að senda hælisleitendur aftur þess lands sem bera ábyrgð á þeim. Í tilfelli Saeeds er það Austurríki. Saeed bjó þar í landi um fjögurra ára skeið þar til honum var meinað um dvalarleyfi þar og kom þá til Íslands.
Arndís telur ákvörðunina óforsvaranlega fyrir margar sakir. Hún telur ljóst að ef Saeed verði sendur til Austurríkis yrði hann tekinn í hald og þaðan sendur aftur til Afganistan. Það skjóti skökku við því íslensk stjórnvöld sendi einstaklinga ekki til Afganistan.
Hún vísar einnig til þess að Saeed hafi myndað sérstök tengsl við stjúpdóttur sína, en unnusta Saeed segir hann hafa gengið dóttur hennar í föðurstað. Arndís segir Útlendingastofnun ekki hafa tekið sérstök tengsl Saeeds við barnið til athugunar vegna þess að tegnslin hafi myndast eftir komu hans til landsins.
Samkvæmt unnustu Saeeds hafa allir hans bræður látist í Afganistan en faðir hans ráðlagði honum 17 ára gömlum að flýja land í kjölfar árása á ættarjörð hans. Talíbanar sækja um þessar mundir í sig veðrið í landinu en einnig samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Unnusta Saeeds heldur því fram að hann yrði drepinn í Afganistan.
Lögregla hefur sagt Saeed að koma aftur til Íslands eftir brottvísunina en Arndís telur ólíklegt að Saeed fái vegabréf í Afganistan og því muni hann festast þar og ekki eiga afturkvæmt til Íslands.