Snöggir að koma konu til aðstoðar

Vel gekk að koma konunni undir læknishendur.
Vel gekk að koma konunni undir læknishendur. Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Vel gekk að koma konu sem slasaðist á öxl á gossvæðinu í gær til aðstoðar. 

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, hrasaði konan ofarlega á hrygg suður af virkasta gígnum og var hún frekar kvalin.

Eftir lagfæringar sem er búið að gera á gönguleiðinni að svæðinu síðustu daga er hún orðin ökufær fyrir viðbragðsaðila og voru þeir snöggir á vettvang, að sögn Davíðs Más. Sjúkraflutningamenn voru um borð í björgunarsveitarbíl sem ók á svæðið.

„Þetta var verkefni sem menn leystu mjög faglega á um klukkutíma,“ segir hann.

Ljósmynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Áður hefur verið erfitt að komast að fólki sem hefur slasast. Bæði hefur þurft að ganga langa leið með börur og einnig hefur verið notast við sexhjól. „Það tók lengri tíma og var verra fyrir sjúklingana,“ bætir hann við. Einnig hefur þyrla Gæslunnar verið notuð í einhverjum tilfellum.

Davíð Már segir að eitthvað sé um slys nánast á hverjum degi á gossvæðinu, enda mikill mannfjöldi sem fer þangað. Tveir ökklabrotnuðu þar á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert