Þorsteinn og Níels hlutu viðurkenningu

Frá vinstri: Níels Einarsson og Þorsteinn Gunnarsson
Frá vinstri: Níels Einarsson og Þorsteinn Gunnarsson Daníel Starrason

Þorsteinn Gunnarsson og Níels Einarsson fengu afhenta viðurkenningu fyrir ötult starf í þágu norðurslóða síðasta miðvikudag, þann 12. maí. Viðurkenningin var veitt í tilefni af 20 ára afmæli Háskóla norðurslóða (University of the Arctic, UArctic). Ásthildur Sturludóttir , bæjarstjórinn á Akureyri veitti viðurkenninguna. Sem viðurkenningarvott fengu þeir málverk eftir Guðmund Ármann. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

Dagana 15.-18. maí verður svo haldin árleg ráðstefna Háskóla norðurslóða. Ráðstefnan átti að fara fram að hluta til á Akureyri en verður þess í stað rafræn í ár.

Þorsteinn var rektor Háskólans á Akureyri 1994 – 2009 og hefur komið að uppbyggingu norðurslóðasamstarfs á Íslandi, á sviði mennta og vísinda.

Í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri segir að í starfi sínu sem rektor hafi Þorsteinn lagt grunninn að þeirri miðstöð norðurslóða sem varð til á Akureyri. Eftir að hann lét af störfum sem rektor hefur hann haldið áfram að starfa í málaflokknum og leiddi hann til að mynda vísindaviku norðurslóða á síðasta ári.

Níels Einarsson er forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar sem er íslensk norðurslóðastofnun sem hóf störf 1997. Stofnunin heyrir undir umhverfisráðuneytið en hún fer með innlent og alþjóðlegt hlutverk viðvíkjandi rannsóknum, upplýsingamiðlun, ráðgjöf og samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfismála á norðurslóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert