Virti ekki grímuskyldu og hljóp undan lögreglu

Svo virðist sem dagurinn í dag hafi verið tiltölulega rólegur …
Svo virðist sem dagurinn í dag hafi verið tiltölulega rólegur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að minnsta kosti á milli klukkan 11 og 17, eins og dagbók lögreglu fyrir þann tíma ber með sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglu barst tilkynning um viðskiptavin verslunar í Breiðholti í dag, sem vildi ekki virða grímuskyldu. Þegar starfsmenn reyndu að tala hann til sýndi hann „ógnandi hegðun“, eins og segir í dagbók lögreglu.

Viðkomandi var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði en hann fannst þó skammt frá. Hann reyndi þá að hlaupa undan laganna vörðum en komst ekki langt.

Í ljós kom að hann var undir áhrifum fíkniefna og segir í dagbók lögreglu að hann hafi verið frjáls ferða sinna eftir stutt tiltal.

Þá var tilkynnt um mann sem gekk um miðbæ Reykjavíkur með þýfi, að því er talið var. Við skoðun kom í ljós að þýfið var frá innbroti frá því í nótt. Viðkomandi var handtekinn og vistaður í fangaklefa og er málið nú í rannsókn að sögn lögreglu.

Loks var tilkynnt um umferðaróhapp í Hlíðunum í dag og reyndist tjónvaldur undir áhrifum áfengis. Hann var handtekinn vegna þess og vistaður í fangaklefa. Tekin verður af honum skýrsla þegar rennur af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert