Aflétta sérstökum takmörkunum í Skagafirði

Sauðárkrókur í Skagafirði.
Sauðárkrókur í Skagafirði. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra ákvað í dag að óska ekki eftir því við heilbrigðisráðuneytið að framlengd verði sú reglugerð sem sett var fyrir Skagafjörð og Akrahrepp vegna hópsmits sem upp kom á svæðinu. 

Jafnframt munu aðrar sóttvarnaaðgerðir sem aðgerðastjórn greip til og gilda til og með sunnudeginum ekki framlengdar. 

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir í samtali viðmbl.is að fjórir hafi greinst með kórónuveiruna innan sóttkvíar í Skagafirði í dag. Þrátt fyrir það er það mat aðgerðastjórnarinnar og smitrakningarteymisins að ekki sé þörf á áframhaldandi hertum aðgerðum. Frá og með mánudegi verður því í gildi í Skagafirði og nágrenni reglugerð sem tók gildi 10. maí og hefur gilt fyrir landið síðan þá. 

Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn.
Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Það var tekin ákvörðun um það að fara í afléttingar, að þessi reglugerð heilbrigðisráðherra um Skagafjörð og Akrahrepp verði ekki framlengd. Þær séraðgerðir sem gripið var til í Skagafirði að öðru leyti verða ekki framlengdar,“ segir Stefán. Engin smitrakning sé í gangi í tengslum við þá einstaklinga sem greindust innan sóttkvíar í dag. 

„Menn telja sig vera búna að ná tökum á þessari hópsýkingu,“ segir Stefán. 

Þakklátur fyrir samstöðuna 

Skólar og margar verslanir og stofnanir á Sauðárkróki hafa verið lokuð síðan á mánudag, sem og sundlaugar í Skagafirði. Um tuttugu smit hafa greinst á svæðinu síðastliðna viku. 

Stefán segir að ekki sé lengur ástæða til þess að undanskilja svæðið þeim reglum sem í gildi eru annars staðar á landinu. Skimun í skólum og leikskólum er lokið og engin rakning smita sé í gangi. Hann sé þakklátur fyrir þá samstöðu sem samfélagið hafi sýnt. 

„Ég er bara gríðarlega þakklátur fyrir þann skilning og þá samstöðu sem íbúar, fyrirtæki og stofnanir hafa sýnt. Án þess hefði þetta aldrei gengið. Fyrir það ber að þakka.“

Stefán minnir þó á að þrátt fyrir að vel hafi tekist að ná utan um hópsmitið þurfi lítið til að önnur hópsýking spretti upp. 

„Þetta er ekki búið. Þetta hópsmit hér kemur út frá einum smituðum einstaklingi sem kemur hingað. Þannig að þótt við séum búin að ná utan um þetta þurfa menn enn þá að gæta að sóttvörnum og fara eftir þeim reglum sem í gildi eru. Við erum engan veginn sloppin við það að geta fengið svona eða sambærilegt aftur,“ segir Stefán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka