Fjallgöngumennirnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson munu reyna að klífa topp Everest-fjalls í kvöld, að því er fram kemur á facebooksíðu Sigurðar. Þar segir að þeir félagar muni reyna að nýta tækifæri sem gefst í kvöld og verður frétta að vænta af þeim eftir um 8-9 daga.
Sigurður segir að þeir og félagar þeirra séu djúpt snortnir vegna skilaboða sem þeim hafa borist, hvaðanæva úr heiminum, þar sem fólk óskar þeim góðs gengis síðasta spölinn upp á topp.
„Ég mun fara inn í kvöldið með auðmýkt í hjarta mínu, fullur þakklætis og reiðubúinn til þess að gefa allt í þetta,“ skrifar Sigurður á facebook.
Um þessar mundir gerir annar Íslendingur sig kláran til þess að reyna við tind Everest-fjalls. Það er hinn kúbverski Yandy Nunez Martinez, sem búsettur er á Íslandi og á íslenska konu. Yandy hitti nýverið þá Sigurð og Heimi og ræddu þremenningarnir stuttlega saman.
Halldóra Bjarkadóttir, kona Yandys, hefur leyft mbl.is að fylgjast með ferðum hans á Everest. Seinast þegar fréttist af honum var hann í grunnbúðum Everest og beið þess að viðraði til þess að komast á toppinn.