Hundruð manna eru samankomin á Austurvelli til þess að mótmæla árásum Ísraelshers gegn Palestínumönnum og þrýsta á íslensk stjórnvöld um að leggja viðskiptabann á Ísrael. Mótmælafundurinn hófst klukkan 13 og hafði verið auglýstur á samfélagsmiðlum.
Samkvæmt upplýsingum viðstaddra, sem meðal annars spurðu lögreglu álits, má ætla að á þriðja eða fjórða hundrað séu viðstaddir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt ræðu í upphafi fundar eins og auglýst var. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur enda fordæmt Ísraelsher og það hefur þingflokkur Vinstri-grænna gert sömuleiðis.
Þá hélt einnig ræðu Falasteen Abu Libdeh.
Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir mótmælafundinum og hefur félagið krafist þess að stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael, þar til landtöku þeirra á landi Palestínubúa verði hætt, þjóðernishreinsunum Ísraela gegn Palestínu verði hætt og loks linnulausum árásum Ísraelshers á Gaza-ströndinni verði hætt.
Yfirskrift fundarins er „Stöðvum blóðbaðið“.