Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í tvö útköll í nótt ef frá eru taldir sjúkraflutningar. Í annað skiptið var um að ræða vatnsleka en í hitt skiptið var gert viðvart um unglinga sem voru að kveikja varðeld nálægt leikskólanum Vinagarði sem er á mótum Holtavegar og Sunnuvegar í Laugardal.
Samkvæmt vakthafandi slökkviliðsmanni var ekki um mikinn eld að ræða. Ekki sé almennt óalgengt að slökkviliðið fái tilkynningar sem þessar þar sem unglingar séu að kveikja í spýtnarusli eða öðru til að grilla sér pylsur eða sykurpúða, eða bara til að hlýja sér.
Umtalsvert minna sé hins vegar um þessi tilvik eftir fjölda útkalla undanfarna daga og vikur vegna sinu- og gróðurelda. Hins vegar séu íbúar einnig varari um sig vegna þessa og tilkynni mál beint og þegar þeir verða varir við að óvarlega sé farið með eld.