„Það er aldrei of varlega farið í þessu“

Ingvi Hrannar hefur skapað sér gott orð meðal kennara á …
Ingvi Hrannar hefur skapað sér gott orð meðal kennara á Íslandi fyrir framúrstefnulegar kennsluaðferðir og nýsköpun í kennslufræðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ingvi Hrannar Ómarsson grunnskólakennari er einn þeirra íbúa Sauðárkróks sem sæta einangrun vegna kórónuveirusmits. Harðari sóttvarnatakmarkanir eru í gildi á Norðurlandi vestra og í kringum Skagafjörð vegna fjölda smita þar en fundað verður í dag um hvort hægt verði að ráðast í tilslakanir á mánudag.

Ingvi Hrannar segir að hann sé sem betur fer ekki mikið slappur og honum sé létt yfir því að hafa greinst í sóttkví en ekki utan hennar. Þannig veit hann að hann smitaði líklega fáa ef nokkurn annan.

„Ég er ekki svo mikið veikur eins og er og vonandi helst það þannig næstu daga. Núna eru það beinverkir, hausverkur og slím í hálsi,“ segir hann við mbl.is.

Sauðárkrókur í Skagafirði.
Sauðárkrókur í Skagafirði. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Ingvi Hrannar starfar í Árskóla á Sauðárkróki, sem varð að loka vegna hópsmits sem þar kom upp meðal starfsfólks og nemenda. Ingvi segir að kennarar og fólk sem starfar með börnum hefðu átt að vera mun framar í forgangsröðun vegna bóluefna, sérstaklega eftir að breska afbrigðisins var vart, sem lagðist sérstaklega á yngstu kynslóðirnar.

„Ég hef sagt það frá því að bólusetningarröðin var gefin út að starfsmenn leik- og grunnskóla hafi átt að vera miklu framar í röðinni með öðru framlínustarfsfólki og hvað þá þegar breska afbrigðið kom til landsins og börn og ungmenni fóru að geta smitað. Þá breyttust allar þær forsendur sem nefndar voru þegar starfsfólki leik- og grunnskóla var raðað í bólusetningarröðina og leik- og grunnskólum haldið opnum fyrir samfélagið allt til að ganga nokkuð eðlilega.

Kennarar um land allt eiga svo stórt hrós skilið fyrir allt sem þeir gera á hverjum degi fyrir aðra og eru lykilfólk í baráttunni okkar við þessa veiru. Kennarar og starfsfólk leik- og grunnskóla mæta til vinnu á hverjum degi og setja aðra á undan sjálfum sér eins og okkur er tamt að gera og samfélagið allt stendur í mikilli þakkarskuld við allt það frábæra fólk sem þar starfar.“

Reynir að lesa veiruna úr sér

Ingvi Hrannar segist eiga marga að sem hjálpa honum í einangruninni. Hann fær mat og drykk frá fólkinu í kringum hann. Spurður hvort lestur góðra bóka hjálpi til við batann stendur ekki á svörum kennarans.

„Sem betur fer á ég margar góðar bækur og á marga góða að sem koma með mat og drykki og skilja eftir við hurðina. Læknarnir á Covid-deildinni hafa hringt hér daglega og þeir mæla með miklum vökva og að borða vel. Annars er það bara hvíld þess á milli og lesa eins og orkan leyfir.“

Aldrei of varlega farið

Fyrst eftir að Ingvi Hrannar fór að kenna sér meins var hann sannfærður um að ekki væri um kórónuveirusmit að ræða, svo léttvæg voru einkennin. Hann ætlaði fyrst bara að hrista slenið úr sér í heita pottinum heima. Þegar kom svo á daginn að hann væri smitaður varð honum ljóst hve slyng veiran er. Hann ráðleggur því sveitungum á Norðurlandi vestra að fara varlega.

„Ég mæli með að fólk hlusti á líkama sinn og fari í einkennapróf og verði heima ef það er eitthvað örlítið slappt eða stíft. Hjá mér var ég ekki slappur heldur fannst ég bara eitthvað aumur í vöðvum og liðamótum og fékk svona pínu slím í hálsinn og hélt að ég þyrfti bara að komast í heita pottinn, en bjóst aldrei við Covid. Einkenni mín voru mjög væg í upphafi og skil ég vel það fólk sem grunar ekki Covid og fer til vinnu á fyrstu dögum vægra einkenna en það er einmitt þá sem við smitum. 

Ég hvet Króksara og landsmenn alla til að fara varlega og hugsa vel hvert um annað. Notum grímuna áfram, þvoum okkur vel og hlustum á líkamann. Það er aldrei of varlega farið í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert