Þingmaður telur að lausnin á húsnæðisvanda flugsveitar Landhelgisgæslunnar sé að staðsetja eina þyrluna á Akureyrarflugvelli. Það myndi styrkja leit og björgun á norður- og austurhluta landsins og víðfeðmum hafsvæðum og gæti verið liður í uppbyggingu björgunarmiðstöðvar á Akureyri.
Fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni að eftir að þriðja leiguþyrla Gæslunnar kom til landsins sé ekki lengur pláss fyrir öll loftför í flugskýli hennar á Reykjavíkurflugvelli. Eina þyrlu eða flugvél þurfi því að geyma utandyra.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ljóst að ekki sé vilji hjá meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur til að Gæslan geti byggt upp sómasamlega aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli. Hins vegar ætti ekki að vera vandamál að byggja upp slíka aðstöðu á Akureyri, jafnvel við nýju flughlöðin sem er verið að útbúa á Akureyrarflugvelli.
Hann segir gott að dreifa björgunarþyrlum um landið. Það sé gert í nágrannalöndum þar sem aðstæður séu svipaðar og hér. Ekki sé óeðlilegt að slíkt sé gert, til dæmis með því að hafa tvær þyrlur í Reykjavík og eina á Akureyri, til að byrja með.