Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði tvívegis í nótt afskipti af ökumönnum á ofsahraða á Miklubraut. Í bæði skiptin var um að ræða ökumenn sem voru 17 ára.
Klukkan hálfeitt var lögreglan við hraðamælingu í Ártúnsbrekku og stöðvaði ökumann sem reyndist á 146 km/klst. hraða, en á þessum stað er 80 km/klst. hámarkshraði. Var forráðamanni viðkomandi kynnt málið og tilkynning send til barnaverndar.
Á öðrum tímanum í nótt hafði lögreglan svo afskipti af öðrum ökumanni, en sá mældist á 160 km/klst. hraða á Miklubraut. Þar er einnig 80 km/klst. hámarkshraði að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Aftur reyndist um 17 ára ökumann að ræða og var hann sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Líkt og í fyrra skiptið var forráðamanni hans tilkynnt um málið auk þess sem tilkynning var send til barnaverndar.
Sjö tilfelli ölvunar- eða fíkniefnaaksturs komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Á tíunda tímanum var ökumaður stöðvaður í miðborginni, en hann var talinn undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hefur hann áður ítrekað verið sviptur ökuréttindum. Þá er hann grunaður um rangar sakagiftir, en hann gaf upp nafn og kennitölu annars manns þegar hann var spurður um persónuupplýsingar.