Guðmundur Felix Grétarsson, sem í byrjun árs fékk grædda á sig handleggi í Lyon í Frakklandi, deildi mynd á facebooksíðu sinni í dag þar sem hann segir að um sé að ræða mynd af einstaklingi sem er hamingjusamur í aðstæðum sem myndu láta 99% fólks ærast.
Þá segir Guðmundur Felix í færslu sinni á Facebook að ef maður glími við vandamál sé bara tvennt í stöðunni: Maður geti annaðhvort gert eitthvað í því eða ekki. Hvorugur möguleikinn krefjist þess af manni að maður fari yfir um.
Guðmundur bendir þar að auki á að fæst vandamál þeirra sem komi til með að lesa færslu hans séu alvöruvandamál. Þau séu einungis öðruvísi en þú vildir að þau væru.
„Allt gæti alltaf verið verra rétt eins og allt getur líka verið betra. Hæfni þín til að gera það sem þarf að gera er miklu meiri þegar þú ert hamingjusamur en þegar þér líður illa. Veljum þakklætið,“ segir Guðmundur.