Stefán Gunnar Sveinsson Oddur Þórðarson
Tveir greindust með kórónuveiruna í fyrradag og voru báðir í sóttkví við greiningu. Voru fjórir á sjúkrahúsi vegna kórónuveirunnar, og hafði einn bæst við milli daga. Tvö smit greindust á landamærunum. 63 eru í einangrun vegna smits, og fækkaði þeim um tólf manns á milli daga. Alls voru 330 manns í sóttkví í gær, miðað við 483 í fyrradag.
Bólusetningar ganga vel, en stefnt er að því að ljúka bólusetningu allra í forgangshópi 7 í næstu viku, en í honum eru allir þeir sem teljast vera með undirliggjandi langvinna sjúkdóma. Þar á meðal er fólk sem t.a.m. er á kvíða- og þunglyndislyfjum.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í gær að farið væri að síga á seinni hluta bólusetninga, en gert er ráð fyrir að rúmlega 15.000 skammtar verði gefnir í næstu viku, en þar af verða um 7.000 skammtar af Moderna gefnir á mánudag, annað eins af Pfizer á þriðjudag og svo um 2.000 skammtar af bóluefni Janssen á fimmtudaginn.
Segir Ragnheiður að mögulega verði hafist handa við að bólusetja fólk af handahófi í þarnæstu viku, ef næst að klára síðustu forgangshópana sem eftir eru, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.