Alþjóðasamfélagið verði að vera samróma

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland tekur þátt í sameiginlegu ákalli alþjóðasamfélagsins um að komið skuli á vopnahléi hið fyrsta milli Ísraels og Palestínu. Óásættanlegt sé að á hverjum degi látist óbreyttir borgarar og börn. Ísland mun ekki ráðast í þvingunar- eða refsiaðgerðir gegn Ísrael eins og kallað hefur verið eftir hér á landi.

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, við mbl.is. Hann segir jafnframt að ekki væri vænlegast til árangurs að Ísland setti viðskiptaþvinganir á Ísrael án stuðnings annarra ríkja. Hins vegar væri vænlegast til árangurs, að hans sögn, að alþjóðasamfélagið sendi skýr og sameiginleg skilaboð um að átökum verði að linna.

„Ég hef ekki heyrt hugmyndir á alþjóðavettvangi um að setja eigi á viðskiptaþvinganir. Og við Íslendingar munum auðvitað halda áfram að beita okkur fyrir mannréttindamálum og höfum gert það í mannréttindaráðinu svo eftir sé tekið. Það sást nú með afstöðu okkar og aðgerðum gegn ríkjum á borð við Sádi-Arabíu og Filippseyjum.

En við höfum ekki tekið þátt í refsiaðgerðum eða þvingunaraðgerðum gegn ríkjum nema með öðrum þjóðum, enda myndi það aldrei bíta neitt nema slíkt sé gert í samstarfi við önnur lönd.

Það sem er líklegast til árangurs að mínu mati og þeirra kollega minna sem ég hef rætt við, er að alþjóðasamfélagið sendi skýr skilaboð um að semja skuli um vopnahlé. Um þetta þarf samfélag þjóða að vera sameinað enda hefur það lítið upp á sig að hvert ríki taki sértæka afstöðu, hvert fyrir sig.“

Norðmenn er án efa það Norðurland sem hefur hvað mest …
Norðmenn er án efa það Norðurland sem hefur hvað mest tekið þátt í friðarumleitunum Ísraels og Palestínu. Ber þar hæst að nefna viðræður sem hófust með mikilli leynd í Ósló, höfuðborg Noregs, og náðu hámarki með undirritun Óslóarsamninganna svokölluðu (hinna fyrri) í Washington D.C. árið 1993. Hér sjást Johan Jørgen, utanríkisráðherra Noregs, og Yitzhak Rabin, forsætisráðherra Ísraels, í D.C. 1993. AFP

Ísland reiðubúið til að taka þátt og aðstoða

Guðlaugur Þór ræddi við utanríkisráðherra Noregs, Ine Marie Eriksen Søreide, í gær um Ísrael og Palestínu. Guðlaugur segist hafa lýst því yfir að Ísland væri boðið og búið til þess að aðstoða ef á þyrfti að halda, þá við mögulegar friðarumleitanir eða annað slíkt. 

„Við skipum okkur auðvitað í hóp þeirra fjölmörgu bandalagsþjóða okkar sem kallað hafa eftir því að vopnahlé verði sett á. Það er meðal þess sem ég sagði við utanríkisráðherra Noregs auk þess sem ég tjáði honum að ef Ísland getur eitthvað gert, að við myndum leggja þau lóð sem við getum á vogarskálarnar.“

Um 200 Palestínumenn hafa látist síðan á mánudag. Á sama …
Um 200 Palestínumenn hafa látist síðan á mánudag. Á sama tíma hafa 10 Ísraelsmenn látist. AFP

Afstaða Íslands til landtöku Ísraela skýr

Guðlaugur segir að afstaða Íslands til landtöku Ísraela í Palestínu sé afar skýr, hafi komið margoft fram og sé afdráttarlaus: Landtaka Ísraelsmanna er ólögleg.

Einnig segir hann að forgangsmálið núna sé að koma á vopnahléi milli Ísraels og Palestínu svo hægt sé að setja aukinn þunga í að ræða langtímalausnir á svæðinu.

„Afstaða Íslands til landtöku Ísraelsmanna á landi Palestínu er auðvitað skýr og hefur margoft komið fram. Ísland viðurkennir ekki lögmæti þessarar landtöku Ísraels enda er hún með öllu ólögmæt.“

Eldflaugar yfir Gaza-svæðinu.
Eldflaugar yfir Gaza-svæðinu. AFP

„Forgangsmálið núna er að koma á vopnahléi en auðvitað erum við á sama máli og flestar bandalagsþjóðir okkar, um að það verði að byggja til framtíðar á tveggja ríkja lausn. Það er eitthvað sem bæði Ísrael og Palestína hafa lýst yfir áhuga á að reyna.  

Er það þá svona langtímamarkmið?

Það væri auðvitað óskandi að það væri skammtímamarkmið, en það liggur auðvitað fyrir að það þarf að leggja aukinn kraft í að koma á varanlegum friði þarna. Við þetta verður ekki búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert