Áttu það til að skúbba

Ólafsfjörður á árunum í kringum 1950.
Ólafsfjörður á árunum í kringum 1950. Ljósmynd/Gunnar Magnússon

Verið er að skanna hátt á þriðja þúsund fréttabréf sem félagar í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar hafa ritað vikulega undanfarin 66 ár og er þess beðið með eftirvæntingu að þau komi almenningi fyrir sjónir enda um að ræða einstaka heimild um tíðarandann nyrðra.

Félagar í klúbbnum hafa haldið fréttabréfinu úti allt frá stofnun hans árið 1955, að frumkvæði Sigurðar Guðmundssonar íþróttakennara. Um 40 bréf hafa að jafnaði verið rituð á ári allan þennan tíma, að sögn K. Haraldar Gunnlaugssonar, forseta klúbbsins. Það þýðir að bréfin eru orðin meira en 2.500 talsins. Honum er ekki kunnugt um að önnur félagasamtök á Íslandi hafi þennan háttinn á, hvorki Rótarýklúbbar né aðrir, en ef svo er væri gaman að hafa af því spurn. „Það er ábyggilega sjaldgæft að farið sé yfir söguna með þessum hætti um leið og hún gerist,“ segir Haraldur.

K. Haraldur Gunnlaugsson, núverandi forseti Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar, flytur ávarp við …
K. Haraldur Gunnlaugsson, núverandi forseti Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar, flytur ávarp við afhendingu súrefnisvéla á Hornbrekku. Ljósmynd/Svavar Berg Magnússon


Gengið vel að varðveita

Félagar hafa skipst á gegnum tíðina þannig að bréfritarar hlaupa orðið á tugum, að sögn Haraldar. Sjálfur hefur hann ritað ófá bréfin. „Ég er búinn að skrifa mörg löng og ítarleg og leiðinleg bréf og einhver skemmtileg líka,“ segir hann kíminn. Eldri félagar eru undanþegnir skrifum en sumir hverjir hafa ólmir viljað halda áfram enda verkið bráðskemmtilegt.

Bréfin voru lengi skrifuð inn í stórar bækur, eins og fundagerðarbækur, en eftir að tölvur komu skrifuðu menn bréfin þar, prentuðu þau út og límdu inn í fréttabréfabækurnar. Síðasta áratug eða svo hafa bréfin verið prentuðu út og geymd í lausblaðamöppum. Sumt af þessu efni hefur að vísu verið lánað út gegnum árin í heimildarskyni, svo sem vegna Árbókar Ólafsfjarðar, og er því nú safnað saman. „Einstaklega vel hefur gengið að varðveita þetta efni og hefur tekist að safna því saman til geymslu á Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar. Þá erum við búin að auglýsa eftir því sem upp á vantar og vonandi gefa fleiri sig fram,“ segir Haraldur og sú hvatning er ítrekuð hér.

En hvað er í þessum ágætu bréfum?

„Allt milli himins og jarðar,“ svarar Haraldur. „Sumt er þó fastur liður. Veðrið er alltaf fyrirferðarmikið, eins samgöngur. Þetta tvennt er rauður þráður í nánast hverju einasta bréfi, sérstaklega fyrstu áratugina. Aflabrögð og uppskera fá líka sitt rými enda hafa þau löngum skipt miklu máli fyrir samfélagið, bæði til sjávar og sveita. Menningar- og íþróttastarfi hefur líka jafnan verið gert hátt undir höfði; þegar Leiftri gekk sem best í fótboltanum var mikið um það fjallað, eins afrek Kristins Björnssonar í skíðabrekkunum. Þannig að tíðarandinn er áberandi hverju sinni. Þetta er mestmegnis tíðindi úr bæjarlífinu og eftir sameininguna kemur Siglufjörður inn.“

Hann nefnir einnig ferðalög bæjarbúa en ófáar ferðasögurnar mun vera að finna í bréfunum. Ungra sem aldinna.

Sigurður Björnsson, Guðmundur Þór Benediktsson, Frímann Ásmundsson, Magnús Magnússon og …
Sigurður Björnsson, Guðmundur Þór Benediktsson, Frímann Ásmundsson, Magnús Magnússon og Ágeir Ásgeirsson við skreiðarhjallana um 1970. Ljósmynd/Svavar Berg Magnússon


Prýðileg stílbrögð

Haraldur segir menn gegnumsneitt segja skemmtilega frá og stílbrögð séu alla jafna prýðileg. „Þetta hefur líka verið gert af miklum metnaði og menn áttu það til að skúbba í þessum bréfum. Menn höfðu virkilega fyrir þessu, sérstaklega hér áður fyrr. Það er erfiðara að skúbba núna með alla þessa netmiðla og samfélagsmiðla. Margt mun án efa rifjast upp fyrir fólki þegar bréfin verða orðin aðgengileg.“

– Er einhver pólitík í þessu?

„Þetta má ekki vera pólitískt í Rótarý en auðvitað lauma menn stundum sínum eigin viðhorfum og sýn á samfélagið inn í bréfin. Og fjalla um það sem stendur þeim næst. Það er bara sjálfsagt og eðlilegt enda er þetta allt gert undir nafni.“

Jódís Jana Helgadóttir skannar bréfin í Menntaskólanum á Tröllaskaga.
Jódís Jana Helgadóttir skannar bréfin í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Ljósmynd/K. Haraldur Gunnlaugsson


Bréfin eru lesin upp á Rótarýfundum á fimmtudagskvöldum og segir Haraldur bréfritara gjarnan sitja sveitta fram á síðdegi sama dag til að hafa tíðindin sem ferskust. Flest bréf eru aðeins lesin einu sinni en þó eru dæmi um að bréf hafi verið lesin oftar og jafnvel birt einhvers staðar.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert