Fleiri fengið sprautu en farið hafa að gosinu

Fleiri hafa fengið bólusetningu við kórónuveirunni en farið hafa að …
Fleiri hafa fengið bólusetningu við kórónuveirunni en farið hafa að gosinu í Geldingadölum. Ljósmynd/Samsett

Í gær höfðu alls 94.196 manns farið að gosstöðvunum í Geldingadölum síðan 24. mars, samkvæmt teljara Ferðamálastofu, en gosið hófst að kvöldi 19. mars. Undanfarna viku hafa um 10 þúsund manns farið, sem verður að teljast í meira lagi, þar sem mun fleiri fóru að gosinu fyrstu dagana eftir að fór að gjósa, en hafa vanalega gert síðustu vikur. 

Að sama skapi hafa, frá og með deginum í gær, 147.592 einstaklingar fengið bólusetningu við kórónuveirunni síðan bólusetning hófst í desember í fyrra. Þar af eru rétt rúmlega 65 þúsund fullbólusettir og bólusetning hafin hjá ríflega 82 þúsund manns.

Handahófs-bólusetning mögulega í þarnæstu viku

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði nýverið við mbl.is að bráðum myndi bólusetning forgangshópa klárast og hafið yrði að bólusetja af handahófi.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. Ljósmynd/Lögreglan

Í næstu viku mun forgangshópur sjö, fólk með undirliggjandi sjúkdóma, klárast og að sögn Ragnheiðar eru hópar átta og níu langt komnir. 

Að því loknu hefst handa­hófs­bólu­setn­ing, sem Ragn­heiður seg­ir að verði mögu­lega í þarnæstu viku. 

„Já, þegar við erum búin með sjö, átta og níu þá dett­um við bara í handa­hófs-bólu­setn­ing­ar.“

Er ein­hver svona fyr­ir­huguð dag­setn­ing ná­kvæm­lega hvenær það hefst?

„Nei, ekki ná­kvæm­lega, en ég gæti al­veg trúað að það yrði í þarnæstu viku. Það fer eft­ir því hvað við fáum mikið af bólu­efni.

Rétt er að taka fram að tölur Ferðamálastofu ná til þeirra sem hafa gengið að gosinu eftir leið A og B og ná þar af leiðandi ekki til þeirra sem hafa farið aðrar leiðir eða komið loftleiðina á gosstaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert