Gera ráð fyrir 600 gestum á sóttkvíarhótelum

Gylfi Þór Þorsteinsson í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg. Byggingin verður nú …
Gylfi Þór Þorsteinsson í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg. Byggingin verður nú að sóttkvíarhóteli. mbl.is/Ásdís

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, segist búast við því að nýtt sóttkvíarhótel verði tekið í notkun í nótt. Hótel Rauðará verður fimmta sóttkvíarhótelið á höfuðborgarsvæðinu, en samningur Rauða krossins við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur sóttkvíarhótela rennur út um mánaðamótin. 

Um fimm hundruð dvelja nú á sóttkvíarhótelum á höfuðborgarsvæðinu og Gylfi gerir ráð fyrir því að þau fjögur hótel sem hafa verið í notkun síðustu vikur eigi eftir að fyllast upp úr miðnætti. Sextíu tilbúin herbergi eru á Hótel Rauðará. Gylfi gerir ráð fyrir því að um 600 manns verði á hótelunum eftir nóttina. 

„Það eru svo hópar að losna núna á næstu dögum, bæði mánudag og þriðjudag. Vonandi verður þetta nú þolanlegt fram eftir vikunni, en það eru alltaf fleiri og fleiri að koma til landsins. Það er líka búið að bæta við fleiri rauðum löndum á listann,“ segir Gylfi. 

Hins vegar sé sá kostur á að einstaklingar sem hingað koma frá Spáni og Póllandi munu bráðlega geta sótt um undanþágu frá dvöl á sóttkvíarhóteli. Það sé vonandi til þess fallið að létta undir á hótelunum, en Gylfi segir að flestir þeirra sem dvelja á hótelunum komi frá Póllandi.

Samningur við SÍ rennur út um mánaðamót

Gylfi segir að búið sé að ráða starfsfólk á Hótel Rauðará. Öll hótel séu því hæfilega mönnuð. 

„Það hefur nú ekki verið erfitt fyrir okkur að finna fólk. Eins og staðan er núna er samningurinn við okkur bara út þennan mánuð, það gæti verið erfitt ef við þurfum að fara ráða fólk í kannski eina eða tvær vikur. En eins og staðan er núna erum við þokkalega mönnuð,“ segir Gylfi og vísar þar í samning Sjúkratrygginga Íslands við Rauða krossinn um rekstur á sóttkvíarhótelum. 

„Við sjáum bara örugglega í næstu viku hvert framhaldið verður á því,“ segir Gylfi. 

Samningur SÍ við Rauða krossinn um rekstur á farsóttarhúsum verður áfram í gildi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert