Góð námsgögn geri gæfumun

Þeir Jökull Sigurðsson (t.v.) og Ingólfur B. Kristjánsson hafa haldið …
Þeir Jökull Sigurðsson (t.v.) og Ingólfur B. Kristjánsson hafa haldið úti Skólavefnum um árabil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hugmyndin vaknaði þegar ég var skólastjóri hjá litlum skóla á landsbyggðinni og sá að þörf var á efni sem þessu,“ segir Ingólfur B. Kristjánsson, ritstjóri Skólavefjarins. Vefurinn skolavefurinn.is mun fagna tuttugu ára afmæli sínu í haust, en þar má nú nálgast fjöldann allan af námsgögnum og öðrum hjálpartækjum fyrir kennara, nemendur og foreldra á grunnskólastigi.

Vefurinn hefur notið sífellt meiri vinsælda á sínum tuttugu árum, og segir Jökull Sigurðsson, framkvæmdastjóri vefjarins, að nær allir grunnskólar landsins séu nú með áskrift eða hafi nýtt sér efni frá honum, auk þess sem sífellt fleiri einstaklingar kaupi sér áskrift.

Ingólfur segir að sérstök áhersla hafi verið lögð á lestraraðstoð og lesskilning, enda hafi henni hrakað gríðarlega að undanförnu. „Þess vegna fórum við af stað til að finna leiðir til að bæta það, enda er það grafalvarlegt til lengri tíma ef læsi fer að hraka,“ segir Ingólfur, en hann á um tuttugu ára kennsluferil að baki, sem spannaði nær allar námsgreinar.

Ingólfur og Jökull eru sérstaklega stoltir af „Litabókunum“ svonefndu, en það eru lestrarkennslubækur, sem skipt er í nokkur stig eftir bæði lengd og þyngd textans. „Við höfum unnið með kennurum og reynt að greina hvar þörfin sé mest á efni,“ segir Ingólfur.

Lestur nær til allra námsgreina

Textarnir spanna alls kyns áhugasvið, allt frá landafræði til norrænnar goðafræði, stærðfræði og jafnvel popptónlistar 20. aldar. „Við erum að reyna að tryggja að börnin lesi textann og fái skilning á honum,“ en allt efni á vefnum er einnig lesið upp. Þá er skilningi fylgt eftir með spurningum úr efninu.

Ingólfur segir að það hafi tekið smátíma fyrir skólana að átta sig á efninu sem þarna var á ferð, því að það spannaði svo vítt svið úr samfélagsgreinunum. „Lestur nær nefnilega til allra námsgreina, og þannig þjálfumst við í lestri með því að lesa sem mest,“ segir Ingólfur og bætir við að skólarnir geti látið nemendur sína nálgast efnið.

Jökull bætir við að innihald og fjölbreytileiki greinanna sé lykilatriði í litabókunum. Jökull rifjar upp að þegar hann og fjölskylda hans fluttu heim frá Svíþjóð með einn strák sem aldrei hafði gengið í íslenskan skóla hafi Litabækurnar leikið lykilhlutverk í að kveikja áhuga hans á lestri, og um leið að hjálpa honum að ná jafnöldrum sínum í skólanum. „Hann hafði sérstakan áhuga á greininni um esperanto, þar sem honum þótti svo undravert að hægt væri að búa til heilt tungumál úr engu,“ rifjar Jökull upp með glampa í augunum. „Þetta sló algjörlega í gegn, og við tókum þessu fegins hendi, því við höfðum reynt allt áður.“

Ekki talað niður til neins

Jökull bætir við að Litabækurnar hafi reynst mörgum vel, þá jafnvel fullorðnum Íslendingum sem hafi íslensku sem sitt annað tungumál. „Það er mjög einkennandi fyrir allt námsefnið á Skólavefnum að það er aldurslaust, það er ekki talað niður til neins.“ Ingólfur bætir við að í námsefninu sé hentug blanda af erfiðu efni og auðveldu til þess að hjálpa nemendum að ná árangri.

Eitt af því nýjasta á vefnum er verkefnið „Lærum íslensku,“ en það er hugsað sem kennsluefni fyrir pólskumælandi nemendur á öllum aldri sem vilja læra íslensku. Ingólfur segir að verkefnið hafi verið tvö ár í vinnslu og Jökull bætir við að þeir hafi fengið góð viðbrögð og um leið þarfar ábendingar um hvernig megi gera efnið enn betra.

Auk íslensku er einnig boðið upp á efni í svo til öllum greinum og er hægt að prenta það út. Jökull segir að færst hafi í vöxt að foreldrar vilji prenta út efni til að börnin eyði ekki jafnmiklum tíma í tölvum og öðrum snjalltækjum, en auk þess geta þau þá farið á vefinn og leyst þar verkefni, m.a. til þess að læra íslenska landafræði, jökla og ár, eða um heimsálfurnar.

Þá er einnig mikið af stærðfræðiefni að finna á vefnum, en nú eru rúmlega 900 myndbönd þar sem grunnhugtök í algebru og reikningi eru útskýrð á íslensku, og farið vel og greinilega í hvert einasta skref í útreikningum. Ingólfur segir að stærðfræðiefnið hafi nýst mörgum vel í námi, jafnvel framhaldsskólanemum. Víkur nú sögu að vefnum framhaldsskoli.is, en þar hefur verið hægt er að fá alls kyns námsgögn fyrir framhaldsskólanema, líkt og Skólavefurinn hefur gert fyrir grunnskólanema.

Héldu í áskrift eftir útskrift

Þar eru Íslendingasögurnar í miklu fyrirrúmi, en efnið þar hefur verið unnið í samráði við dr. Baldur Hafstað, sem er sérfræðingur í Egils sögu Skallagrímssonar, og kenndi Ingólfi á sínum tíma í Kennaraháskólanum. Hefur Baldur unnið þar sérstakar orðskýringar við Íslendingasögurnar og jafnvel myndbönd þar sem helstu meginstef sagnanna eru rædd. „Við höfum lent í því að fullorðið fólk hafi viljað halda áfram með áskriftina til að lesa sögurnar áfram eftir að barnið þeirra var útskrifað úr menntaskóla,“ segir Ingólfur og brosir.

Þá hafi Baldur lagt til að taka upp Íslendingasögur sem ekki hafi almennt séð verið kenndar við íslenska framhaldsskóla, Króka-Refs sögu og Finnboga sögu ramma, og hefðu einhverjir skólar tekið þær til kennslu í kjölfarið.

Þeir Ingólfur og Jökull taka þó fram að nú standi til að sameina vefina, meðal annars vegna þess að mörg heimili séu með krakka á bæði grunn- og framhaldsskólaaldri, sem þeir hafi viljað koma til móts við í gegnum tíðina. „Við reynum að halda verðinu á einstaklingsáskriftum í algjöru lágmarki,“ segir Ingólfur. Þá sé efni elstu bekkja grunnskóla og yngri bekkja framhaldsskólanna sífellt samþættara og því verði það til mikilla bóta að sameina vefina tvo.

Ljóst er að gríðarmikið efni hefur safnast saman á vefjunum tveimur á þeim tuttugu árum tæpu sem liðin eru frá því Ingólfur og Jökull fóru af stað með Skólavefinn, og þeir hyggjast halda því starfi áfram. „Við eigum nefnilega frábæra kennara hér á landi, vel menntaða og færa. En þá vantar oft kennslugögn við hæfi, og þar reynum við að koma til aðstoðar,“ segir Ingólfur og Jökull tekur undir. „Góð námsgögn geta nefnilega gert gæfumuninn til þess að halda áhuga nemenda á náminu.“

Einungis efni sem við höfum trú á

Fyrir um áratug ákváðu þeir Ingólfur og Jökull að færa út kvíarnar með rafbókasíðunni lestu.is og hljóðbókasíðunni hlusta.is. „Það var svo mikil þörf á rafbókasíðu á sínum tíma að við ákváðum að gera þetta, því við höfðum svo mikið af rafbókum tiltækt,“ segir Ingólfur.

Efnið á vefjunum tveimur er fjölbreytt og fæst hvergi annars staðar. „Við veljum bara bækur sem við höfum áhuga á og trúum að aðrir hafi áhuga á,“ segir Ingólfur, en þar má finna bæði skáldsögur og fræðibókmenntir á ensku eða íslensku. „Og svo erum við með Matthías Johannessen,“ segir Ingólfur.

Matthías er landsþekkt skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, en eftir hann liggja fjölmargar ljóðabækur, skáldverk og síðast en ekki síst viðtalsbækur sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma. Rúmlega fjörutíu bækur eftir Matthías er að finna á vefjunum tveimur, bæði í raf- og hljóðbókaformi. Þá er þar einnig að finna nýtt efni eftir Matthías. Þar á meðal má nefna ljóðabókina Andlit fölra skugga, sem kom út á þessu ári og er hvergi fáanleg annars staðar.

Jökull segir að síðurnar tvær séu nokkurs konar hliðarverkefni, en lestu.is var á sínum tíma fyrsta rafbókasíða landsins. „Þetta var gert af ákveðinni hugsjón,“ segir Jökull, og bætir við að rafbækur séu nú aftur að ryðja sér til rúms eftir að hafa vikið fyrir hljóðbókum. Rafbækurnar eru gjaldgengar í bæði Kindle-forriti og í ePub-formati, sem önnur tæki notist flest við.

Á hlusta.is er sömuleiðis efni sem ekki finnst annars staðar. Ingólfur nefnir þar ævisögu Jóns Óskars atómskálds, sem lýsi vel tíðarandanum á millistríðsárunum.

Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert