Breytingar á veðurspá milli daga eru enn í miklu lágmarki og ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á komandi dögum. Kalt verði fyrir norðan og austan og víða næturfrost en ágætishiti að deginum sunnan og vestan til. Líkur á dálitlum skúrum að deginum um landið suðvestanvert, einkum þó við suðurströndina. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Stjórnast veðrið af einni hæð og tveimur lægðum í kringum landið. Yfir Grænlandi er 1.032 mb hæð, en skammt vestan af Hjaltlandi er 995 mb lægð sem þokast í suðvesturátt. Austur við Noreg er nærri kyrrstæð 997 mb lægð.
Í dag er spáð norðaustan 5-13 m/s með lítils háttar éljum á Norður- og Austurlandi, en annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Líkur eru á skúrum sunnan heiða á morgun.
Á höfuðborgarsvæðinu verður 3-8 m/s norðlæg átt í dag, skýjað með köflum og hiti á bilinu 4-8°C, en nálægt frostmarki í nótt. Gert er ráð fyrir að skúrasvæðið á morgun nái einnig til höfuðborgarsvæðisins.
Lítil breyting er í spá næstu daga, en aðeins dregur úr vindi á miðvikudag og hiti yfir daginn ætti að klifra aðeins upp þegar líður á vikuna og jafnvel komast upp í 10 stig um landið suðvestanvert á föstudaginn.