Samtals voru um 100 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og fram á morgun. Samkvæmt því sem kemur fram í dagbók lögreglunnar var mikið um hávaðatilkynningar og önnur mál tengd ölvun.
Meðal verkefna lögreglunnar í nótt var umferðareftirlit á Bústaðavegi, en þar voru allir ökumenn stöðvaðir og athugað með ástand þeirra. Allt í allt voru 200 stöðvaðir og reyndist einn grunaður um ölvun, einn sem blés var undir refsimörkum og sá þriðji var réttindalaus.
Þá stöðvaði lögreglan bifreið á Reykjanesbraut í Kópavogi þar sem ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum. Sýni reyndist hins vegar neikvætt. Tveir farþegar voru í bifreiðinni sem ökumaðurinn var að skutla í Hafnarfjörð og var hann grunaður um að stunda leigubílaakstur án leyfis og sölu áfengis. Við skoðun reyndist farangursgeymsla bifreiðarinnar full af áfengi og var það haldlagt fyrir rannsókn málsins.
Um miðnætti fékk lögreglan tilkynningu um líkamsárás í Grafarholti, en þegar lögregla kom á staðinn voru árásarmenn farnir af staðnum. Sá sem fyrir árásinni varð var með skurð á hendi og fékk aðhlynningu frá sjúkraflutningamönnum.