„Okkar von að við séum komin með yfirhöndina“

Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á Norðurland vestra.
Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á Norðurland vestra. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjögur af þeim fimm smitum sem greindust hér á landi í gær voru á Sauðárkróki. Öll greindust þau hjá fólki sem var þegar í sóttkví. Þrátt fyrir fjöldann ákvað aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra að óska ekki eftir að framlengd yrði sérstök reglugerð frá og með mánudeginum sem hefur náð til Skagafjarðar og Akrahrepps. Verður sérstökum takmörkunum fyrir svæðið því aflétt á miðnætti.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir að allt stefni í eðlilegt horf í sveitarfélaginu á mánudaginn, en eftir að hópsmit kom upp á Sauðárkróki í síðustu viku var farið í mjög harðar aðgerðir og sveitarfélagið sett í hálfgerða gjörgæslu með umfangsmiklum lokunum. „Við fórum í að loka nánast öllu,“ segir Stefán, en skólum og sundlaugum var lokað og leikskólar aðeins opnir fyrir forgangshópa. Þá var miklum fjölda vinnustaða lokað og fólk vann að heiman að hans sögn.

„Það er okkar von að við séum komin með yfirhöndina,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann segir að gríðarleg samstaða hafi verið um verkefnið þó að eðlilegt sé að einhver gagnrýni komi upp. „Við erum ekki yfir gagnrýni hafin í þessu, en samstaðan var gríðarleg og samtakamátturinn mikill að gera þetta vel og kveða niður hratt og örugglega,“ segir Stefán.

Þegar mest var voru 400-500 manns í sóttkví samkvæmt skráningu og langflestir þeirra á Sauðárkróki, en Stefán bendir á að íbúafjöldi staðarins sé um 2.700. Hann bendir þó á að talsverður fjöldi til viðbótar hafi farið í sjálfskipaða sóttkví og hlutfall þeirra sem voru í sóttkví því verið umtalsvert hærra. „Það var bara slökkt á samfélaginu.“

Skagafjörður hafði hingað til sloppið nokkuð vel að sögn Stefáns og jafnvel hafi verið uppi væntingar um að sveitarfélagið myndi sleppa næstum alveg við faraldurinn. Því voru aðgerðirnar sem farið var í mun harðari en íbúar sveitarfélagsins höfðu vanist hingað til að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert