Takast á um meintan klíkuskap í Hæstarétti

Jón Steinar Gunnlaugsson og Eiríkur Tómasson, fyrrverandi dómarar við Hæstarétt.
Jón Steinar Gunnlaugsson og Eiríkur Tómasson, fyrrverandi dómarar við Hæstarétt. Samsett mynd

Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari og prófessor vísar á bug þeirri gagnrýni sem sett er fram í grein Jóns Steinar Gunnlaugssonar, einnig fyrrverandi hæstaréttardómara, þar sem hann segir að klíkuskapur einkenni störf Hæstaréttar. 

Þetta gerir Eiríkur á Sprengisandi, þjóðmálaþætti Bylgjunnar, í dag. 

Meðal þess sem Jón Steinar fullyrðir í grein sinni er að dómarar við Hæstarétt séu of margir, þeir eigi að hámarki að vera fimm talsins en ekki sjö eins og nú er. Þetta segir hann sérstaklega eiga við núna, þegar Landsréttur hefur tekið við mörgum af þeim verkefnum sem Hæstiréttur hafði áður með höndum. 

Eiríkur Tómasson, fyrrum hæstaréttardómari, andmælir gömlum vini og kollega, Jóni …
Eiríkur Tómasson, fyrrum hæstaréttardómari, andmælir gömlum vini og kollega, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, með orðum sínum á Sprengisandi í morgun. Jón Steinar skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann vænir Hæstarétt um klíkuskap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá leiðir Jón Steinar að því líkum að dómarar við Hæstarétt vilji vera svona margir vegna þess að þá geti þeir í auknum mæli tekið að sér önnur störf samhliða dómarastörfum, nefnir hann störf og stöður innan lagadeildar Háskóla Íslands í því sambandi. 

„Í ljós er komið að þeir eru farnir að gegna umfangsmiklum störfum utan réttarins. Til dæmis eru fjórir þeirra sitjandi í föstum kennarastöðum við lagadeild Háskóla Íslands, þrír sem prófessorar og einn dósent. Þetta er nýtt í sögu réttarins. Í fortíðinni hafa kennarar sem hlotið hafa skipun í Hæstarétt jafnan sagt kennslustöðum sínum lausum.

Nefna má í dæmaskyni Ármann Snævarr, Þór Vilhjálmsson, Arnljót Björnsson, Markús Sigurbjörnsson, sjálfan mig og Viðar Má Matthíasson. Fyrsta dæmið um þessa sérkennilegu nýbreytni er Benedikt Bogason, sem gegnir prófessorsstöðu við lagadeild HÍ. Það gera núna líka Björg Thorarensen og Ása Ólafsdóttir. Karl Axelsson er dósent. Þannig sitja nú fjórir af sjö dómurum réttarins í föstum kennslustöðum við lagadeild HÍ,“ segir Jón Steinar í grein sinni. 

Vegna þessa segir Jón Steinar að myndist „óeðlilegt bandalag“ milli lagadeildarinnar og Hæstaréttar – lokaður klúbbur sem t.a.m. Háskólinn í Reykjavík hefur ekki aðgang að. 

Segir Jón skorta rök til að styðja mál sitt

Eiríkur Tómasson segir á Sprengisandi að Jón Steinar viti nú betur en að halda þessu fram. Eðlilegt sé að menn og konur þekkist í íslenskri dómstólasýslu og innan réttarkerfisins og að stundum þurfi fámennan hóp sérfræðinga til þess að skera úr um mál sem styr stendur um. 

„Sko, það er nú bara þannig hér á Íslandi ...“

En finnst þér hún vera ómakleg þessi gagnrýni?

„Mér finnst hún vera mjög ómakleg og satt að segja þá er hún lítt rökstudd, eins og kom fram hér í síðasta þætti. Og það er náttúrlega fráleitt að við séum að velja gamla vini, vini hæstaréttardómara, eins og kom fram í dæmi sem tekið var í þættinum síðast. Það er náttúrlega alveg út í hött.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert