Ákvörðunin um að fara fram á lögbann á hendur vefverslunum sem bjóða upp á áfengi í smásölu var tekin að frumkvæði ÁTVR.
Þetta segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, aðspurð hvort þetta hafi verið ákveðið að beiðni dómsmálaráðuneytisins. Hún segir ÁTVR ekki hafa verið í neinu sambandi við ráðuneytið vegna málsins.
Að sögn Sigrúnar Óskar er hlutverk ÁTVR skýrt gagnvart lögum um að selja og afhenda áfengi í smásölu. „Þegar þetta er svona komið er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort þetta er löglegt,“ segir hún um starfsemi vefverslana sem bjóða áfengi í smásölu.
Spurð hvort starfsemi vefverslunarinnar Santewines SAS hafi komið henni á óvart svarar hún því bæði játandi og neitandi. „Við höfum séð umræðu um vefverslanir undanfarið og það mátti búast við því að það yrði látið reyna á það,“ segir hún. Besta niðurstaðan sé því að skera úr um málið hjá til þess bærum aðilum.
Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður hjá Santewines SAS, hefur kvartað til Neytendastofu undan því að ÁTVR noti heitið Vínbúðin um starfsemi sína. „Við höfnum því að við höfum ekki heimild til að nota þetta nafn,“ segir Sigrún og bætir við að ef Neytendastofa tekur málið fyrir mun ÁTVR rökstyðja mál sitt þar.