ÁTVR undirbýr nú beiðni um lögbann á hendur vefverslunum sem bjóða neytendum hér á landi áfengi í smásölu. Þetta kemur í kjölfar þess að Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður hjá Santewines SAS, hóf að selja vín á vefsíðu fyrirtækisins og afhenda það svo jafnvel samdægurs af lager félagsins sem er hér á landi. Fyrirtækið er hins vegar skráð í Frakklandi.
Í tilkynningu frá ÁTVR kemur fram að vefverslanir sem þessar hafi sprottið upp að undanförnu og að smásölu þeirra sé beint til neytenda hér á landi. „Starfseminni er beint gegn lögbundnum einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis, sem hefur verið ein grunnstoða íslenskrar áfengisstefnu,“ segir í tilkynningunni.
Vísað er til þess að þeir sem reka vefverslanirnar hafi fullyrt að rekstur þeirra væri löglegur. „Óhjákvæmilegt er að fá úr því skorið hjá til þess bærum aðilum. ÁTVR hefur því hafið undirbúning að beiðni um lögbann á hendur vefverslununum og höfðun dómsmáls í framhaldi af því. Samhliða er hafinn undirbúningur lögreglukæru vegna starfseminnar.“
Segir jafnframt í tilkynningunni að einkaréttur ríkisins til smásölu byggist á lýðheilsusjónarmiðum. „Verði starfsemi vefverslana í beinni samkeppni við smásölu ÁTVR látin óáreitt felur það í sér grundvallarbreytingu á áfengisstefnunni og forsendum fyrir rekstri fyrirtækisins.“
Arnar hefur sjálfur kvartað til Neytendastofu vegna notkunar hennar á heitinu Vínbúðin á rekstri sínum. Segir hann enga lagastoð vera fyrir notkuninni og viðskiptaboð á hennar vegum villandi.