B.1.617 hefur ekki greinst innanlands

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæði smitin sem greindust innanlands í gær voru á Suðurlandi og tengjast hópsmitum þar. Enginn greindist utan sóttkvíar um helgina og að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis eru það góðar fréttir. Stökkbreytt afbrigði veirunnar sem fyrst greindist á Indlandi, B.1.617, hefur ekki greinst innanlands hér en tveir greindust með það á landamærunum nýverið og eru þeir báðir í einangrun í sóttvarnahúsi. 

Þórólfur minnir á að breska afbrigðið, sem nú er nánast alls ráðandi hér, hafi ekki greinst innanlands fyrr en töluvert eftir að það kom fyrst upp við landamæraskimun. Til þess að forðast samfélagssmit B.1.617 hér gildir það sama og áður; að fólk haldi sóttkví sem og einangrun og farið að gildandi sóttvarnareglum. 

Þórólfur segir að öll smit, bæði eins og reynslan var með breska afbrigðið, er engin ástæða til að ætla annað en að þær aðgerðir sem er beitt hér; það er sóttkví, einangrun, finna snemma og rekja, eigi að duga.

Það gildir einu um hvaða afbrigði er að ræða ef fólk rýfur sóttkví og einangrun þá er hætta á smiti.

Þórólfur segir að ekki sé vitað með indverska afbrigðið hvort það sleppi undan fyrri sýkingum eða bólusetningum. Eins hvort það er að valda alvarlegri veikindum en það er greinilega meira smitandi en mörg önnur afbrigði.

Annars staðar á Norðurlöndunum hefur yngra fólk verið að veikjast verr af stökkbreyttum afbrigðum Covid-19 og jafnvel þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

Ekki von á afléttingu í þessari viku

Hann á ekki von á því að sóttvarnareglum verði breytt fyrr en í næstu viku en núgildandi reglur eru í gildi til miðvikudagsins 26. maí. Aftur á móti er ríkisstjórnin að skoða tillögur hans hvað varðar landamærin. Eitt af því sem þar hefur verið nefnt er að leita til Íslenskrar erfðagreiningar varðandi aðstoð við skimun á landamærunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert