Félagið Ísland-Palestína hefur boðað til mótmæla fyrir utan Hörpuna klukkan níu í fyrramálið.
Þar mun Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna funda með utanríkisráðherra, forsætisráðherra og forseta Íslands á morgun.
Félagið hvetur fólk til þess að mæta fyrir utan Hörpuna til þess að „sýna íslenskum og bandarískum stjórnvöldum að mannréttindabrot og þjóðernishreinsanir verða ekki liðin“.
Nokkur viðbúnaður er vegna fundarins og verða yfir hundrað manns frá ríkislögreglustjóra og lögregluembættunum á höfuðborgarsvæðinu á vakt frá því Blinken lendir og þar til fundarhöldunum lýkur á fimmtudag.
Fjölmennt fylgdarlið er í för með Blinken og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þar á meðal vopnaðir öryggisverðir á vegum ríkisstjórna þeirra.