„Við setjum ekkert út á það að stjórnvöld grípi til þessara sumarúrræða fyrir námsmenn og atvinnuleitendur. Það er bara hið eðlilegasta mál í þessu ástandi. Framkvæmdin hefur hins vegar að hluta til farið mjög úrskeiðis að okkar mati,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda í samtali við mbl.is.
Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda (FA) er því andmælt harðlega að ekki skuli hafa verið hugað að áhrifum námskeiða, sem endurmenntunardeildir ríkisháskólanna Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri hafa auglýst undir merkjum „sumarúrræða stjórnvalda,“ á samkeppni á fræðslumarkaði.
Námskeiðin eru ýmist gjaldfrjáls eða kosta 3.000 krónur og segir í tilkynningu FA að námskeiðin séu niðurgreidd af fé skattgreiðenda sem eru mörg hver í beinni samkeppni við námsframboð einkarekinna fræðslufyrirtækja.
Ólafur bendir á að enginn geti keppt við námskeið sem boðið er upp á á 3.000 krónur. Því hafi félagsmenn FA þurft að fella hjá sér ýmis námskeið.
„Við teljum það afskaplega kaldhæðnislegt og öfugsnúið, þegar ríkið grípur til úrræða til að aðstoða fyrirtæki sem starfa á almennum markaði, að fræðslufyrirtækin fá í rauninni tvöfalt högg. Fyrst missa þau miklar tekjur út af samkomutakmörkunum og svo í beinu framhaldi kemur ríkið og niðurgreiðir beina samkeppni við þau,“ segir Ólafur.
Félag atvinnurekenda hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA sem er enn með málið til umfjöllunar.
Segir í tilkynningu FA að í framhaldi af kvörtuninni hefur Samkeppniseftirlitið sent menntamálaráðuneytinu bréf og brýnt fyrir ráðuneytinu að „huga fyrirfram að þeim samkeppnislegu áhrifum sem ákvarðanir og ráðstafanir ráðuneytisins geta haft.“
Tilkynninguna í heild sinni má lesa á vef Félags atvinnurekenda.