Flugstöðin ekki boðleg nokkrum sköpuðum hlut

Sigurður Ingi er ekki hrifinn af aðstöðunni á Reykjavíkurflugvelli.
Sigurður Ingi er ekki hrifinn af aðstöðunni á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli „engan veginn boðlega nokkrum sköpuðum hlut” og fór yfir innlend flugvallamál á Alþingi í dag.

Hann sagðist eiga von á áhættumati frá Veðurstofu Íslands vegna mögulegrar uppbyggingar flugvallar í Hvassahrauni en að einhverjar tafir yrðu líklega á því vegna anna hjá Veðurstofunni. Reykjavíkurflugvöllur væri þó ekki að fara neitt fyrr en annar jafn góður, eða betri, flugvöllur væri tryggður.

Njáll Trausti Friðbertsson tók málið upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma og hafði orð á því að áratugur væri liðinn síðan varaflugvallagjaldið var afnumið hér á landi. Með því hefði milljarður á ári horfið úr flugvallakerfinu sem hefði getað nýst til uppbyggingar. Það fé hefði þess í stað runnið beint inn í Keflavíkurflugvöll en fjárlög hefðu engan veginn náð að bæta upp tjónið sem varaflugvellir hafi beðið. 

Sigurður Ingi sagði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafa unnið að því að setja á 100 króna varaflugvallagjald sem mætti leggja á hér og nú. Það myndi bæta verulegum fjármunum inn í kerfið og samgönguráðherra sagðist ætla halda áfram að berjast fyrir slíkri gjaldtöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert