Árleg forvarnarherferð Stígamóta um ofbeldi í nánum samböndum ungmenna er komin í loftið. Stígamót hófu herferðir sínar undir nafninu Sjúk ást árið 2018 og er því um að ræða þeirra fjórðu herferð.
Í ár leggja Stígamót sérstaka áherslu á að ungt fólk þekki muninn á heilbrigðum, óheilbrigðum og ofbeldisfullu samböndum og hafa til þess sett í loftið sambandspróf á heimasíðu átaksins.
„Sambandsprófið er byggt á reynslu okkar á Stígamótum og inniheldur raunveruleg dæmi sem komið hafa upp í ráðgjöf. Það er mikilvægt að vita hvað er í lagi og hvað ekki, svo hægt sé að rækta heilbrigð samskipti í sambandinu og þekkja hættumerki,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta.
„Það er hjálplegt bæði til að breyta og bæta eigin hegðun sem og að átta sig á því ef verið er að beita mann ofbeldi.“
„Við hvetjum alla til þess að taka prófið,“ segir Heiðrún Fivelstad, en hún stýrir verkefninu sem ber nafnið Sjúk ást. „Jafnvel þó það sé ætlað ungmönnum þá hafa allir gott af því að taka prófið.“
Til að vekja athygli á sambandsprófinu fengu Stígamót til liðs við sig áhrifavaldana Patrek Jamie, Villa Netó, DJ Dóru Júlíu, Emblu Wigum, Kristófer Acox og Helga Ómarsson í myndbandsupptökur.
„Með þessu prófi viljum við að ungmenni geri sér grein fyrir hvað sé eðlilegt í sambandi, hvað sé heilbrigt og hvað ekki. Við vildum fá fyrirmyndir, fólk sem að nær til ungmenna og fólk sem þau fylgjast með á samfélagsmiðlum og þess háttar.“
Myndböndin má nálgast hér og á öllum helstu samfélagsmiðlum: