Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í 10 mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni en maðurinn var meðal annars fundinn sekur um að kasta hraðsuðukatli og stól að fangavörðum á Litla-Hrauni.
Maðurinn var þá einnig fundinn sekur um að hafa hótað og hrækt í andlit og augu læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þann sama dag hrækti hann einnig í andlit fangavarðar og lögreglumanna og fór þá hrákinn í augu beggja lögreglumannanna.
Hinn ákærði hefur áður verið sakfelldur meðal annars fyrir stórfellda líkamsárás, auðgunarbrot og fíkniefnalagabrot. Síðasta dóminn hlaut hann í apríl 2019.
Auk 10 mánaða fangelsisdóms var honum gert að greiða sakarkostnað sem nam 320.638 krónum.