Rúmlega þúsund ára hefð er fyrir því að Noregskonungar hlýði á ljóð í flutningi Íslendinga, enda voru flest hirðskáld Noregskonunga um aldirnar íslensk, nægir þar að nefna nafntoguð skáld á borð við Sighvat Þórðarson, stallara og hirðskáld Ólafs helga, og Hallfreð vandræðaskáld Óttarsson sem jós Ólaf konung Tryggvason skáldmælgi sinni.
Um hádegisbil í dag, 17. maí, þjóðhátíðardag Norðmanna, fékk Noregskonungur enn að hlýða á kveðskap af munni Íslendings þegar Iðunn Þórsdóttir kvaddi sér hljóðs og flutti Haraldi Noregskonungi og Sonju drottningu ljóð við konungshöllina í Ósló, en Iðunni til fulltingis var skólasystir hennar, Helene Kristina Blystad.
„Kennarinn minn hringdi í mig og spurði hvort mig langaði að gera þetta, hún sagðist vilja fá einhvern sem hún treysti og þekkti,“ segir Iðunn í samtali við mbl.is, eða Idunn Sofie Elisabeth Thorsdottir eins og hún heitir í þjóðskrá í Noregi, þar sem hún er hálfnorsk, fædd og uppalin í höfuðborginni Ósló og talar bæði málin reiprennandi, íslensku og norsku, enda alin upp við að tala sitt málið við hvort foreldri sitt.
Iðunn er 18 ára gamall nemandi við hinn nafntogaða Hartvig Nissens-menntaskóla í Ósló sem hlaut heimsathygli í unglingaþáttunum SKAM hér um árið, en skólanum var boðið að velja nemendur úr sínum ranni til að syngja fyrir konungshjónin og borgarstjóra Óslóar, Marianne Borgen, fyrir utan Oscarshall við Frognerkilen á Bygdøy í gær og koma svo fram á ný með ljóðaflutningi í dag.
Iðunn og Helene fengu auk þess að ræða við konungshjónin eftir sönginn í gær og kvað Iðunn þau hjón hafa verið hin alþýðlegustu og ákaflega geðþekk. „Þau hrósuðu okkur fyrir sönginn og við spurðum þau þá hvort þau væru eitthvað í tónlist, léku á hljóðfæri eða álíka, en þau voru fljót að svara því neitandi,“ segir Iðunn.
Hún er dóttir tveggja lögfræðinga, þeirra Þórs Garðarssonar og Ann-Cathrin Marcussen, en auk þess er föðuramma Iðunnar, Elsa Þórðardóttir, búsett í Ósló og hefur verið í rúmlega hálfa öld, en Elsa kom til borgarinnar á vegum Flugfélags Íslands, síðar Flugleiða og nú Icelandair, í ágúst 1966, og var annar tveggja starfsmanna félagsins sem önnuðust móttöku véla þess á flugvellinum á Fornebu, rétt utan við Ósló, forvera Gardermoen.
Í dag fluttu Iðunn og Helene svo, sem fyrr segir, ljóð við konunghöllina og sýndi norska ríkisútvarpið NRK beint frá athöfninni sem þar var haldin, þar sem allra sóttvarnareglna var gætt í hvívetna og því öllu fámennara á svæðinu en veirulaus ár, þegar skrúðgöngu 30.000 barna lýkur samkvæmt hefð við höllina. Í dag var gangan haldin í tölvuleiknum Minecraft í staðinn.
Ljóðið sem Iðunn flutti Haraldi konungi var reyndar ekki frumsamið og rammíslenskt dróttkvæði um glæsta hernaðarsigra og innrásir konungs í nágrannalönd, enda lítið um slíkar væringar síðan Norðmenn háðu örstutt stríð við Svía sumarið 1814.
Ljóðið er eftir Shayantavi Thipakaran, nemanda við Stasjonfjellet-skólann, án titils, og fjallaði að sögn Iðunnar um bjartsýni æskufólksins sem landið erfir, á að brátt komi betri tíð eftir hremmingar undanfarinna missera og hljómaði niðurlag kveðskaparins svo:
Et håp om en bra fremtid,
mer demokrati,
mindre frykt,
rettferdighet,
bra sykehustjeneste,
frihet.
Kjennes ikke dette kjent ut?
Jo det gjør det,
dette er Norge vettu,
på det sterkeste.
Skáldið kallar í verki sínu eftir von um bjarta framtíð, lýðræði, burðugt heilbrigðiskerfi og frelsi og klykkir út með því að spyrja hvort vígorðin hljómi ekki kunnuglega. Það geri þau einmitt því þau lýsi Noregi upp á sitt besta.
Og talandi um bjarta framtíð, hvernig hyggst Iðunn ráðstafa sinni? Hún lýkur stúdentsprófi frá Hartvig Nissens-skólanum að ári, vorið 2022.
„Ég ætla að fara í nám til Bandaríkjanna, í University of Washington í Seattle,“ segir Iðunn án andartaks umhugsunar. Hún er á leiklistarbraut í menntaskólanum sínum í Ósló, en hefur ekki gert upp hug sinn að fullu um háskólanámið, enda nægur tími til stefnu.
Í sumar er Iðunn komin með leiðbeinandastöðu á kajaknámskeiði fyrir börn hjá Kajak-klúbbi Óslóar, en vonast til að eiga kvæmt í heimsókn til Íslands nú þegar landamæri opnast senn og unnt verður að snúa sóttkvíarlaust til baka á norskar heimaslóðir.
„Ég vona að ég geti skroppið til Íslands, en ég veit ekkert um það enn þá,“ segir Idunn Sofie Elisabeth Thorsdottir, Iðunn Þórsdóttir á ástkæra og ylhýra, að lokum, en þær vinkonurnar ætla að hittast og borða saman að kvöldi þjóðhátíðardagsins.