Glæpasögur Lilju Sigurðardóttur hafa fengið góðar viðtökur hér á landi og henni hefur líka gengið flest í haginn erlendis. Sérstaklega í Bretlandi og Frakklandi og einnig hefur hún sótt í sig veðrið í Þýskalandi. Í Dagmáli segir Lilja að viðtökur erlendis skipti sig miklu máli, enda sé íslenskur bókamarkaður eðlilega markaður af fjölda þeirra sem lesa íslensku.
„Það skiptir rosa miklu máli, enda er það salan sem gerir mér kleift að vera rithöfundur í fullu starfi. Á Íslandi eru það fáir lesendur að það heldur ekki uppi mjög mörgum rithöfundum, bara sú sala. Ég á stóran og góðan og vaxandi lesendahóp á Íslandi en þegar maður hefur kannski 4.000-5.000 lesendur á Íslandi en 400.000-500.000 í útlöndum þá gerir það manni kleift að ástunda þetta sem er bara frábært.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.