Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að setja á tímabundið bann við flugi dróna og annarra fjarstýrðra loftfara á tilteknu svæði í Reykjavík, vegna ráðherrafundar norðurskautsráðsins sem haldinn verður í vikunni.
Af þeim sökum verður óheimilt að fljúga fjarstýrðu loftfari í innan við 500 metra radíus frá Hörpunni, Grand-hóteli í Laugardal og Hilton Nordica-hóteli við Suðurlandsbraut.
Bannið gildir sömuleiðis um Borgartún og Skúlagötu að Hörpu, auk Sæbrautar í vestur frá Kringlumýrarbraut, strandlengjuna þar við og 200 metra út á haf frá Sæbraut.
Bannið er skýrt nánar á kortinu hér að ofan, sem fylgir tilkynningu frá lögreglu.
Bannið hefur þegar tekið gildi og gildir til miðnættis aðfaranótt föstudags. Vísar lögregla til 4. töluliðar 12. gr. reglugerðar um starfrækslu fjarstýrðra loftfara nr. 990/2017.
Lögregla vekur einnig athygli á því að búast megi við smávægilegum umferðartöfum miðsvæðis í höfuðborginni meðan á ráðherrafundinum stendur, eða frá þriðjudegi til fimmtudags. Engum götum verður þó lokað vegna þessa.