Borið hefur á því að einstaklingar mæli með að eitra fyrir köttum með því að blanda matvælum saman við frostlög, til þess að losna við ketti í nærumhverfinu.
Voru ummæli á þessum nótum látin falla í athugasemdakerfi við frétt Fréttablaðsins, sem fjallaði um hugsanlegt bann við lausagöngu katta.
„Fiskur og frostlögur leysir svona vandamál,“ var skrifað við fréttina. Annar lesandi ritar: „Það hefur reynst vel í Hveragerði að marinera kjúkling upp úr frostlegi...“
Ummælin hafa verið tilkynnt til Matvælastofnunar (MAST) og segir Halldóra Björk Ragnarsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands, að erfitt sé að sanna hverjir beri ábyrgð á því að kettir drepist eftir að hafa innbyrt frostlög. Margir kettir drápust í Hveragerði haustið 2019.
„Það hefur hingað til ekki verið hægt að standa neinn að verki né hafa uppi á einhverjum sem gerir svona lagað,“ segir Halldóra. Hún bendir á tilkynningaskyldu vegna gruns um meðferð á dýrum sem fer gegn lögum um velferð dýra.