Segir dóm stangast á við vernd friðlands

Hornstrandir.
Hornstrandir. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun athugar nú hvort áfrýja skuli dómi sem féll í Héraðsdómi Vestfjarða í máli þyrlufyrirtækisins Reykjavík Helicopters ehf., þar sem tveir flugmenn voru sýknaðir af ákæru fyrir brot gegn náttúruverndarlögum.

„Við þurfum að taka dóminn til skoðunar með okkar ráðuneyti og skoða hvernig sé rétt að bregðast við honum,“ segir Eva B. Sólan lögfræðingur Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun vill skýrari niðurstöðu

Meðal þeirra atriða sem stofnunin ætlar að skoða er hvort bæta þurfi við lagarammann í kringum loftferðir á friðlýstum svæðum til þess að gera hann skýrari. Einnig finnst stofnuninni útskýringum héraðsdóms vera ábótavant.

Stofnunin segist skoða að áfrýja dómnum til þess að fá skýrari niðurstöðu í málið.

„Ef dómurinn stendur væru það skýr skilaboð um að það þurfi að skoða löggjöf um náttúruverndina og að mögulega þurfi að bæta einhverju við hana,“ segir Eva.

Enn fremur segir stofnunin að þyrluflug yfir friðland stangist á við markmið um umhverfisvernd á Íslandi og sér hún fyrir sér að loftferðir yfir friðlendi yrðu háðar leyfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert