Tjón af völdum hugsanlegs lögbanns gagnvart vefverslunum sem bjóða upp á áfengi í smásölu gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna fyrir Santewiens SAS.
Þetta segir Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður og eigandi fyrirtækisins, spurður út í fyrirhugaða beiðni ÁTVR um lögbann. Santewines SAS hóf að selja vín á vefsíðu fyrirtækisins og afhenda það jafnvel samdægurs af lager félagsins sem er hér á landi. Fyrirtækið er aftur á móti skráð í Frakklandi.
Arnar segir fyrirhugaða beiðni ÁTVR ekki hafa komið alfarið á óvart. Hann nefnir samt að til að geta fengið sett lögbann þurfi að leggja fram tryggingu. „Ef lögbannið stenst ekki geri ég fastlega ráð fyrir því að ÁTVR hafi heimild frá fjármálaráðuneytinu til að leggja fram viðunandi tryggingu fyrir því tjóni sem slíkt lögbann gæti valdið,“ segir hann og bætir við: „Ef þú stöðvar starfsemi hjá einhverjum í skyndingu þarftu að bæta það tjón sem viðkomandi verður fyrir ef þú hefur ekki haft rétt á þessari lögbannskröfu. Þetta yrði þá tjón sem myndi hlaupa á hundruðum milljóna ef til þess kæmi.“
Arnar nefnir einnig að ekki sé ljóst gegn hverjum lögbannið beinist. Væntanlega gegn erlendri netverslun eða lögaðila og því gætu þær ansi margar fengið á sig lögbann. Hann kveðst skilja að ÁTVR bregðist við því að verða undir í samkeppni þar sem hans fyrirtæki bjóði upp á lægra vöruverð og betri þjónustu. Það geti valdið sárindum.
„Við hefðum talið eðlilegt að þeir myndu mæta þessari samkeppni með betra verði og betri þjónustu, sem væru þessi venjulegu viðbrögð,“ segir hann.
„Hins vegar geta menn alltaf farið eðlilega dómsleið í gegnum venjulegt dómsmál. Lögbann er inngripsaðgerð sem menn ráðast ekki í nema menn telja sig verða fyrir tjóni sjálfir en í þessu tilfelli eru það neytendurnir sem verða fyrir aðaltjóninu.“