Ákveðið að hækka varnargarðana

Ákveðið var í gær að halda áfram framkvæmdum við varnargarða sem eiga að koma í veg fyrir að hraun renni úr Nafnlausa dalnum niður í Nátthaga.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, sagði að garðarnir hefðu verið komnir í fjögurra metra hæð þegar ákveðið var að hækka þá enn meir. Ekki var búið að ákveða hvað farið yrði hátt en samkvæmt hönnunarforsendum var gert ráð fyrir allt að átta metra háum görðum.

Allra fyrst var rutt jarðvegi að brún undanhlaups undan hraunjaðrinum ofan við Nátthaga til að tefja framgang hraunsins. Fannar sagði að hraunmolar hefðu verið farnir að detta yfir þessa fyrstu vörn. „Menn tóku eftir því að þessir lágu og litlu garðar sem rutt var upp við hraunjaðarinn héldu býsna vel aftur af hrauninu. Það gaf vonir um að stærri og öflugri garðar gætu virkað vel,“ sagði Fannar. Hann segir að mikið sé í húfi að hraunið fari ekki fram af brúninni niður í Nátthaga.

„Það munar um allt sem gert er til þess að tefja hraunið. Ef heldur áfram að gjósa mánuðum saman þá kemur að því að dalir muni fyllast af hrauni. Fram að því væri gott að verja Nátthaga í lengstu lög og reyna að beina hrauninu til austurs þar sem Meradalir geta tekið við hraunflæði,“ segir Fannar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert