Ánægður með fund og vill stöðva hringrás ofbeldis

Antony Blinken á blaðamannafundi í Hörpu.
Antony Blinken á blaðamannafundi í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist ánægður með að vera kominn til Reykjavíkur og árétti afstöðu Bandaríkjanna varðandi átökin fyrir botni Miðjarðarhafs á blaðamannafundi í Hörpunni í dag. Hann þakkaði Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra fyrir góðar viðtökur og afkastamikinn fund.

Blinken byrjaði á því að ítreka vilja bandarísku ríkisstjórnarinnar um að koma á vopnahléi á Gasaströndinni. Hann sagði að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði komið þeirri ósk til Netanjahú en ítrekaði þó afstöðu Bandaríkjanna um að Ísrael ætti rétt á því að verja borgara sína og landið sitt. Kvað hann markmið Bandaríkjanna að stoppa þá „hringrás ofbeldis“ sem ætti sér stað á svæðinu og aðstoða við að koma á varanlegum frið.

Blinken hampaði Íslandi sem leiðandi afli í jafnréttis- og mannréttindabaráttu. Sagði hann rödd Íslands vera háværa á því sviði og sagði að þegar Ísland talaði legðu aðrar þjóðir við hlustir. Ísland væri einnig leiðtogi þegar það kæmi að endurnýjanlegri orku og framsækinni umhverfisstefnu. Sagðist hann sérstaklega hrifinn af því að Ísland stefni að kolefnishlutleysi fyrir 2040, í þessum efnum væri Ísland fyrirmynd annarra ríkja.

Blinken sagði tengsl ríkjanna tveggja afar sterk, bæði í gegnum NATO og tvíhliða varnarsamninginn. Bandaríska þjóðin sé áhugasöm um jarðhræringar og náttúrufegurðina hér á landi. Hann og Guðlaugur hefðu vegna þessa rætt leiðir til að auka viðskipti milli landanna og minnka þau höft sem verið hafa á ferðalögum milli þeirra.

Norðurslóðir haldist friðsamlegur samvinnuvettvangur

Hann sagði Bandaríkin og Ísland einnig deila markmiðum á sviði Norðurslóða. Ríkin vilja að svæðið sé friðsamlegur samvinnuvettvangur. Svæði þar sem náttúran er virt en einnig innfæddir þjóðflokkar. Kvað Blinken Ísland hafa verið góðan leiðtoga Norðurskautsráðsins þrátt fyrir heimsfaraldur COVID og taldi sterkara eftir formennsku þess.

Þá sagði Blinken Ísland og Bandaríkin einnig með sameiginlegan snertiflöt þegar kemur að  alþjóða heilbrigðisöryggi, sér í lagi varðandi heimsfaraldra annað þess háttar.

Blinken var stoltur af því að Bandaríkin hefðu verið fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði lýðveldisins Íslands og eiga þannig þátt í 1000 ára sögu einstaklingsfrelsis á Íslandi.

Antony Blinken á blaðamannafundi í Hörpu.
Antony Blinken á blaðamannafundi í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert