Flugfélagið Play er byrjað að selja flugmiða til sjö áfangastaða í Evrópu en fyrsta flug félagsins verður 24. júní.
Play hóf sölu á miðum nú á sjötta tímanum og býður upp á eitt þúsund frímiða af því tilefni. Þar gildir fyrstir koma fyrstir fá.
Fyrsta flugið verður til London og kostar miðinn þangað frá 6.500 krónum. Aðrir áfangastaðir eru Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn, París og Tenerife. Flug á þá áfangastaði hefst í júlí. Til að mynda er hægt að bóka ferð til Tenerife 3. júlí og Berlín 5. júlí. Alicante 17. júlí og Barcelona 23. júlí. París verður í boði frá 18. júlí og Kaupmannahöfn 22. júlí.
Núverandi flugáætlun gildir út apríl 2022. Fyrsta flug félagsins verður til London Stansted 24. júní.
„Félagið, sem er að verða tveggja ára gamalt, efndi gamalt loforð til þeirra sem höfðu skráð sig á póstlista PLAY en þeim var gefið forskot á sæluna og fengu fyrstir tækifæri til að næla sér í þau 1.000 fríu flugsæti sem eru falin á www.flyPLAY.com,“ segir í tilkynningu.
Flogið verður til London fjórum sinnum í viku, á mánudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum. Í flugflota Play verða þrjár Airbus A321neo farþegaþotur fyrir 192 farþega. Sú fyrsta, TF-AEW, verður tekin í notkun eins og áður sagði 24. júní en hinar eru væntanlegar í júlí. Allar flugvélarnar eru í eigu AerCap.