„Enginn er fangi nema í fangelsi sé”

Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar.
Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar. Ljósmynd/ Bent Marinósson

Í dag fá menn sem ljúka fullnustu refsingar utan fangelsis ekki að njóta réttinda á borð við atvinnuleysisbætur, þrátt fyrir að þeir beri skyldur og greiði skatta og gjöld sem frjálsir menn.

Lögin eru túlkuð þeim í óhag þannig að þeir eru skilgreindir sem fangar án þess að vera í raun á framfæri fangelsismálastofnunar. Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar, vill heildarendurskoðun á lögum og reglugerðum sem snúa að fullnustu refsingar.

Í lögum og reglugerðum um fullnustu refsinga er talað um fullnustu dómþola og fullnustu fanga á víxl án þess að gerður sé greinarmunur þar á. Af þessu leiðir sú staða að stofnanir, ráðuneyti og fagaðilar grípa til þeirrar túlkunar að skilgreina alla sem fanga hvort sem þeir afplána refsingu í fangelsi eða utan þess.

Einstaklingar í einskismannslandi

Oft gilda aðrar reglur um fanga en frjálsa einstaklinga enda er litið svo á að þeir séu á framfærslu Fangelsismálastofnunar. Þeir fangar sem afplána refsingu utan fangelsis ýmist á Vernd, í rafrænu eftirliti eða samfélagsþjónustu eru hins vegar ekki á framfærslu Fangelsismálastofnunar og því staddir í einskismannslandi þar sem þeir njóta heldur ekki réttinda sem aðrir borgarar.

Þegar einstaklingur er kominn inn á Vernd þarf hann að vinna fyrir sér, borga skatta og önnur opinber gjöld, þar á meðal í atvinnutryggingasjóð. Þráinn telur að lögin séu hins vegar túlkuð þessum einstaklingum í óhag þannig að þeir beri skyldurnar en njóti ekki réttindanna.

Þráinn hefur lengi barist fyrir því að ráðist verði í heildarendurskoðun á lögunum þannig að þau bjóði ekki upp á að brotið sé með þessu móti á réttindum einstaklinga að geðþótta stofnana.

Ekki talin standast

„Enginn er fangi nema í fangelsi sé,” segir Þráinn og telur hann þessa hugtakanotkun laganna því vera villandi. „Þegar einstaklingur er kominn út er hann að fullnusta dóm með öðrum hætti en sem fangi, enda er hann ekki lengur frelsissviptur með sama hætti heldur orðinn þátttakandi í samfélaginu.”

Úrskurðarnefnd velferðarmála tók fyrir mál árið 2009 sem vistmaður á Vernd höfðaði gegn Tryggingastofnun ríkisins. Í þeirri niðurstöðu var komist að því að ákvörðun Tryggingastofnunar, að neita honum um endurhæfingarlífeyri og örorkubætur á þeim grundvelli að hann væri enn fangi, var ekki talin standast og því felld úr gildi.

Úrskurðarnefnd komst sem sé að því að áfangaheimili líkt og Vernd, rafrænt eftirlit eða samfélagsþjónusta, væru ekki sambærileg fangelsi og ættu einstaklingar sem ljúka afplánun með þeim hætti að njóta almennra réttinda úr Tryggingasjóði frá þeim tímapunkti sem þeir losna úr fangelsi.

Áfangaheimili líkt og Vernd, rafrænt eftirlit eða samfélagsþjónusta eru ekki …
Áfangaheimili líkt og Vernd, rafrænt eftirlit eða samfélagsþjónusta eru ekki fangelsi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fær ekki bætur þótt hann borgi

Þessi niðurstaða úrskurðarnefndar hefur haft áhrif á vinnubrögð Tryggingastofnunar en aðrar stofnanir, eins og Vinnumálastofnun, hafa ekki litið svo á að þetta fordæmi eigi við sig. Þeir sem missa vinnuna meðan þeir eru inni á Vernd fá ekki atvinnuleysisbætur þótt þeir borgi í atvinnuleysistryggingasjóð meðan þeir eru í starfi.  

Þráinn lýsti því hvernig einstaklingur á Vernd, sem vann í 16 mánuði og missti svo vinnuna í tvo mánuði, gat ekki sótt um atvinnuleysisbætur. Bætur eru ekki greiddar einstaklingum sem enn eru fangar í skilningi laganna. Lögin eru svo túlkuð þannig, af Vinnumálastofnun, að allir sem fullnusta dóma samkvæmt skilningi laganna teljist frelsissviptir og þar með fangar.

Aðspurður hvort hann finni fyrir tregðu til breytinga segir Þráinn að hún lýsi sér helst í því að löggjafinn átti sig ekki á því hve mikla þýðingu þessi misvísandi hugtakanotkun hefur fyrir þessa einstaklinga. „Þeir standa frammi fyrir samfélagslegum, lagalegum og stjórnsýslulegum hindrunum.” Hefur hann sent umboðsmanni Alþingis erindi og bíður nú svara.

Eðlilegra að veita aðstoð meðan endurhæfing er í gangi

Þráinn bendir einnig á að ef stefnan er raunverulega að minnka jaðarsetningu þurfi að grípa þetta fólk meðan það er fúst til þess að þiggja hjálp. „Það á sérstaklega við um einstaklinga inni á Vernd,” bætir hann svo við.

Hann telur það skekkju hve erfið sveitarfélögin eru viðureignar í tengslum við að veita mönnum sem fullnusta refsingu utan fangelsa þá aðstoð sem býðst „frjálsum” einstaklingum. Þótt slíkt feli í sér tilviksbundinn sparnað verður á endanum dýrara fyrir sveitarfélögin enda fá þau allt þetta fólk í sínar hendur að lokinni fullnustu. Væri því eðlilegra að þau leituðust við að liðka til og veita aðstoðina á meðan endurhæfingin er í gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert